Innlent

Fjölmiðlanefnd aðhefst ekki

Elfa Ýr Gylfadóttir
Elfa Ýr Gylfadóttir
Fjölmiðlanefnd hefur ekki heimild til að grípa til viðurlaga vegna þeirrar ákvörðunar Stöðvar 2 að bjóða aðeins Ólafi Ragnari Grímssyni og Þóru Arnórsdóttur að taka þátt í umræðuþætti á sunnudag. Nefndin hefur ekki heldur heimild til að gefa fjölmiðlaveitum fyrirmæli um hvernig umfjöllun þeirra í aðdraganda kosninga skuli háttað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni.

Þingmenn Hreyfingarinnar höfðu sent fjölmiðlanefnd erindi vegna ákvörðunar Stöðvar 2. Þá höfðu frambjóðendur gert athugasemdir við fyrirkomulagið.

Vísað hefur verið í 26. grein fjölmiðlalaganna, þar sem kemur fram að fjölmiðlaveitur eigi að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þá eigi þær að gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram.

Fjölmiðlanefnd segir í tilkynningu sinni að hvað sem úrræðum nefndarinnar líði standi þessi grein eftir sem stefnuyfirlýsing sem fjölmiðlaveitum beri að hafa í heiðri. Nefndin hvetur til þess að þær hugmyndir sem búi að baki þessari grein laganna verði hafðar í huga á næstu vikum og gætt verði að því að sjónarmið allra forsetaframbjóðenda fái að koma fram.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×