Skoðun

Látum fordómana fjúka!

Guðrún Runólfsdóttir skrifar
Það er löngu kominn tími á að beina athygli að þessu feimnismáli. Þetta kemur mér vissulega við sem einstaklingi þar sem ég greindist nýlega með geðhvarfasýki (bipolar disorder). Ég hins vegar ákvað fljótlega eftir greiningu að líta ekki á geðsjúkdóma sem feimnismál.

Segjum sem svo, að frænka mín greindist með krabbamein. Það yrði rætt um á milli flestra í ættinni eins og ekkert væri. Alls ekkert feimnismál þar á ferðum. En ef frænka mín hefði greinst með geðsjúkdóm af alvarlegum toga, myndi fólk almennt ekki vita hvernig það ætti að bregðast við og í raun verða ansi vandræðalegt þegar sjúkdómur hennar kæmi til tals.

Málið er að t.d. minn geðsjúkdómur og flestir aðrir eru líffræðilegir, alveg nákvæmlega eins og krabbamein. Geðraskanir eru meðal algengustu sjúkdóma sem hrjá þjóðina, einkum ungt fólk og aldraða. Þeir valda sennilega meira vinnutapi og kostnaði fyrir samfélagið en flestir aðrir sjúkdómaflokkar. Geðsjúkdómar eru svo algengir en samt er svo sorglega lítið talað um þá.

Nú er árið 2012 og það er ótrúlegt að enn séu svo miklir fordómar í gangi. Ranghugmyndir fólks um að geðdeildir séu eins og í bandarískum bíómyndum (til dæmis One Flew Over the Cuckoo?s Nest). Langir hvítir gangar, einangrunarklefar, spennitreyjur og strangir læknar og hjúkkur. Þetta var það sem kom upp í huga minn áður en ég var lögð inn. En ég get fullvissað ykkur um að svo er alls ekki.

En þið þarna úti, sem eigið ástvini með geðsjúkdóma af einhverju tagi eða glímið við þá sjálf, munið að stuðningur vina og fjölskyldu er ómetanlegur. Það er líka mikil hjálp í boði á Íslandi, geðdeildir spítalanna, fyrir alla aldurshópa. Stundum eru lyf göldrum líkust og sálfræðimeðferðir gagnast fjölmörgum.

Það er hægt að lifa í sátt og samlyndi við geðsjúkdóma.

Nú er kominn tími á breytingar. Breytum viðhorfum okkar.




Skoðun

Sjá meira


×