Viðskipti innlent

Málarekstur gegn SFO hefur ekki áhrif

Vincents Tchenguiz.
Vincents Tchenguiz.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), framkvæmdi í mars í fyrra húsleitir á ýmsum stöðum vegna rannsóknar sinnar á lánveitingum Kaupþings til bræðranna Vincents og Roberts Tchenguiz.

Bræðurnir fóru síðar í staðfestingarmál til að fá úr því skorið hvort að SFO hefði brotið reglur þegar húsleit var gerð hjá þeim, þeir voru handteknir og færðir til yfirheyrslu ásamt nokkrum fyrrum yfirmönnum Kaupþings og starfsmönnum Roberts. Auk þess vildu þeir fá úr því skorið hvort reglur um meðferð gagna hefðu verið brotnar. Nú er beðið niðurstöðu dómstóla í málinu og er talið að hún sé væntanleg mjög bráðlega.

Embætti sérstaks saksóknara hefur oft verið spyrt við þetta mál í umræðunni, enda tóku starfsmenn þess þátt í aðgerðunum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir hins vegar að málið byggi ekki að neinu leyti á gögnum frá embættinu og að það muni ekki hafa nein áhrif á rannsóknir þess. „Það hefur aðallega verið fjallað um gögn sem SFO fékk í Bretlandi frá endurskoðunarfyrirtæki sem unnið hefur fyrir slitastjórn Kaupþings. Í yfirlýsingum SFO hafa heldur ekki komið fram neinar athugasemdir gagnvart okkur. Við vorum í töluvert miklum yfirheyrslum núna seint í vetur, sem voru framkvæmdar af SFO og við áttum aðild að. Ég reikna með að ef einhverjum vandkvæðum hjá embætti sérstaks saksóknara væri orsök þess að þeir væru í vandræðum með sín mál þá væru hnökrar á því samstarfi. Svo er ekki," segir Ólafur Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×