Tónlist

Stór nöfn á styrktartónleikum

Björgvin Halldórsson er einn af aðstandendum tónleikanna, en hann hefur þekkt Davíð frá því hann var barn.
Björgvin Halldórsson er einn af aðstandendum tónleikanna, en hann hefur þekkt Davíð frá því hann var barn.
„Við viljum eiga saman ánægjulega kvöldstund og styrkja hann Davíð okkar í leiðinni," segir stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson, einn aðstandenda styrktartónleika fyrir Davíð Örn Arnarsson sem berst við krabbamein í hálsi.

Margt af vinsælasta tónlistarfólki landsins mun stíga á svið á tónleikunum og segir Björgvin sífellt bætast á listann. Meðal þeirra sem þegar eru staðfestir eru Bubbi Morthens, Sálin hans Jóns míns, Brimkló, Krummi, Jón Jónsson, KK og auðvitað Bó sjálfur.

Davíð Örn er 31 árs gamall. Hann var greindur með krabbamein árið 2008 og hefur att harða baráttu við það síðan. Hann er sonur þeirra Arnars Sigurbjörnssonar og Sigrúnar Sverrisdóttur, en Arnar þessi var gítarleikari í hljómsveitunum Brimkló, Flowers og Ævintýri.

„Þar er tengingin við marga af þessum frábæru aðilum sem að tónleikunum koma. Ég er til dæmis búinn að þekkja Davíð frá því hann var barn," segir Björgvin. Allir sem að tónleikunum koma gera það ókeypis svo ágóði tónleikanna rennur óskertur til styrktar Davíð og fjölskyldu hans, en hann er kvæntur með eina dóttur og eina stjúpdóttur.

Tónleikarnir verða klukkan 21 næstkomandi fimmtudagskvöld í Austurbæ og er miðasala í fullum gangi á midi.is.

„Það er mikill gangur í miðasölunni og við búumst við fullu húsi á fimmtudaginn. Ég hvet fólk því til að tryggja sér miða áður en það verður of seint, því það verða bara þessir einu tónleikar," segir Björgvin. -trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×