Skoðun

Nýtt hlutverk, næsti forseti

Gunnar Hersveinn skrifar
Ísland hefur þúsund andlit og grímur. Ein gríma er sett upp á hverjum tíma – jafnvel fleiri. Grímurnar heita: land hreinleikans, hrikafegurðar, land stóriðju, fiskveiða og friðar, land jafnréttis, fjármála og þjónustu, land ferðamannsins og eldgosa.

Á tímum vörumerkja hefur ímynd áhrif á viðhorf og viðmót annarra til lands og þjóðar. Ímynd um frelsi og fjörug fjármál laðar t.a.m. til sín ákveðna tegund fyrirtækja til landsins en ímynd um öryggi og matarmenningu aðra.

Yfirleitt setja stjórnvöld meginstefnu og markmið. Þannig voru ríkisstjórnir Davíðs, Halldórs og Geirs með þá stefnu að gera Ísland að fjármálamiðstöð á heimsmælikvarða. Yfirvöld gáfu með því forsetanum hlutverk sem hann rækti af alúð.

Hlutverk forseta Íslands fólst þá m.a. í því að styðja og efla það sem Ísland átti að verða. Ólafur Ragnar fékk það hlutverk að markaðssetja Ísland sem alþjóðlega miðstöð fjármála og þjónustu. Hann gerði það af krafti – en nú er þessu hlutverki lokið. Hann er bæði lofaður og lastaður fyrir.

Ísland er um þessar mundir að gera tilraun til að móta sér aðra ímynd og til að markaðssetja hana þarf annan forseta, annað andlit, nýja grímu. Það andlit Íslands þarf að byrja með hreint borð til að geta tekið trúverðugan þátt í nýrri stefnu og unnið að markmiðum hennar.

Hver verður meginstefnan á næstu fjórum árum? Árið 1996 átti Ísland að verða miðstöð upplýsingatækni í heiminum. Árið 2003 miðstöð fjármála og þjónustu. Árið 2009 átti að markaðssetja Netríkið Ísland – fremst þjóða! Ef til vill verðum við sammála um nýja stefnu árið 2013 og þá um leið öðlast næsti forseti Íslands nýtt hlutverk til að fylgja henni eftir.

Hvert hlutverkið verður – mér er það hulið. Ísland gæti orðið miðstöð ferðamála og þjónustu eða lífrænnar matarframleiðslu, miðstöð eldfjallagarða eða jafnréttis og fjölskyldugilda, miðstöð heilsulinda, hátækni eða land skapandi greina.

Hvert sem það verður, þurfum við örugglega nýtt forsetaandlit til að vinna því brautargengi. Fyrir mér er það augljóst.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×