Innlent

Ungir karlar nota frekar munntóbak

Ný könnun sýnir að 7,3% karla nota tóbak í vörina. Flestir nota íslenskt tóbak.
Ný könnun sýnir að 7,3% karla nota tóbak í vörina. Flestir nota íslenskt tóbak. Fréttablaðið/GVA
Um 7,3% íslenskra karlmanna taka tóbak í vörina og 44% hafa einhvern tímann prófað það, að því er fram kemur í nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Landlæknisembættið. Hlutfallið er mun hærra í yngri aldursflokkum.

Um er að ræða símakönnun sem var gerð í mars og apríl og svöruðu tæplega 1.100 karlar spurningunni. Munntóbaksneysla meðal kvenna var undir einu prósenti. Þegar litið er til aldursdreifingar sést að nær fimmtungur í hópi átján til 24 ára tekur tóbak í vörina og 44% hafa einhvern tíma tekið í vörina.

Á aldursbilinu 25 til 34 ára taka 15% svarenda í vörina, en 28% segjast einhvern tíma hafa tekið í vörina, en einungis 1% af svarendum sem eru 45 ára eða eldri. Langflestir sem taka í vörina segjast nota neftóbak frá ÁTVR, eða annað íslenskt tóbak, en sjöundi hver notar sænskt tóbak.

Könnunin tók einnig til annars konar tóbaksnotkunar og kom meðal annars fram að 14,2% Íslendinga átján ára og eldri segjast reykja daglega og 2,3% sjaldnar en daglega. Þá segjast 5% karla taka tóbak í nefið en slík neysla mældist ekki meðal kvenna.

Landlæknisembættið hefur látið þýða þýska skýrslu sem tiltekur skaðsemi munntóbaksnotkunar og er ráðgert að leggja í herferð gegn henni á næstunni. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×