Skoðun

Kveðja frá Hinsegin dögum

Þorvaldur Kristinsson skrifar
Hinsegin dagar í Reykjavík eru nú haldnir í fjórtánda sinn. Frá því að vera lítil eins dags hátíð sem fimmtán hundruð gestir sóttu, hefur hátíðin vaxið og dafnað með hverju ári og er núna litrík sex daga hátíð sem 80–90 þúsund manns sækja.

Hinsegin dagar hafa ótrúlega þýðingu fyrir samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk á Íslandi. Hátíðin hefur eflt fólki kjark og verið því vettvangur til að standa stolt frammi fyrir samborgurum sínum. Hinsegin dagar eru staðfesting þess að samstaðan færir okkur djörfung og virðingu þegar rétt er á málum haldið.

En hátíðin hefur ekki eingöngu verið hinsegin fólki ávinningur í baráttu þess. Hinsegin dagar eru einn litríkasti þátturinn í menningarlífi Reykvíkinga og njóta meiri vinsælda en flestir aðrir viðburðir á Íslandi. Viðurkenningin sem þjóðin sýnir með þátttöku sinni, gleði og stuðningi er stærsta inneign Hinsegin daga.

Hátíð Hinsegin daga í ár stendur í sex daga. Þessa daga leggjum við okkur fram um að miðla menningu hinsegin fólks, til skemmtunar, til fróðleiks, til íhugunar og ekki síst til að brýna fyrir sjálfum okkur og þjóð okkar að öll berum við ábyrgð hvert á öðru, að barátta hinsegin fólks fyrir mannvirðingu og mannréttindum er ekki einkamál þeirra sem í hlut eiga heldur varðar hún alla Íslendinga.

Ekki síður er mikilvægt að muna það á hátíð Hinsegin daga að málstaður mannréttinda er ekkert einkamál þjóða. Á liðnum árum hafa Hinsegin dagar reglulega boðið til sín gestum frá ríkjum þar sem hinsegin fólk á í vök að verjast, þiggja fræðslu, hlusta, nema, og gefa gestunum stundum góð ráð. Þá hafa Hinsegin dagar lagt drjúgan skerf af mörkum til að mótmæla misrétti og mannréttindabrotum um allan heim. Því að málstaður mannréttinda þekkir engin landamæri.

Við þökkum þjóðinni ómetanlegan stuðning á liðnum árum og bjóðum bæði Íslendinga og erlenda gesti velkomna á fjórtándu Hinsegin daga í Reykjavík sem ná hámarki með gleðigöngunni laugardaginn 11. ágúst.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×