Tíska og hönnun

Eftirlíking af Fuzzy skýtur upp kollinum í Danmörku

Sigurður Már Helgason hannaði kollinn Fuzzy árið 1970. Danskt fyrirtæki að nafni Lop Furniture hannar koll sem þykir furðu líkur Fuzzy.
Sigurður Már Helgason hannaði kollinn Fuzzy árið 1970. Danskt fyrirtæki að nafni Lop Furniture hannar koll sem þykir furðu líkur Fuzzy. fréttablaðið/stefán
Dönsk hönnunarstofa sem nefnist Lop Furniture framleiðir kolla sem þykja furðu líkir Fuzzy-kollinum sem hannaður var árið 1970 af Sigurði Má Helgasyni. Vöruhönnuðurinn Svana Lovísa Kristjánsdóttir heldur úti blogginu Svartáhvítu og vakti hún fyrst athygli á málinu á síðu sinni á miðvikudag.

Sigurður Már hafði ekki heyrt af málinu þegar Fréttablaðið hafði samband við hann og gat þar af leiðandi lítið tjáð sig um það. Hann segir Fuzzy-kollinn þó að mestu hafa fengið að vera í friði frá því hann leit fyrst dagsins ljós.

„Ég veit að fólk hefur gert svona kolla handa börnum sínum en annars hefur hann að mestu verið látinn í friði. Ég veit um eitt dæmi þar sem danskt fyrirtæki var með svipaðan koll á sölusýningu og það var spurt hvort um íslenska kollinn væri að ræða, ég veit ekki hvort það var sami aðili og er hér á ferð," segir hann.

Fuzzy-kollurinn hefur farið víða og nýverið keypti The American Scandinavian Foundation í New York einn slíkan af Sigurði Má. Þó Sigurður sé orðinn sjötíu og þriggja ára er hann langt því frá hættur að skapa og var hann meðal þátttakenda í Hönnunarmars í ár þar sem hann sýndi lampa úr gleri og viði. „Ég er ekki hættur og bý enn þá til kollinn frá a til ö. Velgengni hans er eins og mesta lygasaga."

„Eftirlíkingar hafa alltaf verið til en nú fyrst er þetta að verða vandamál," segir Svana Lovísa sem gerði hönnunarstuld að umfjöllunarefni lokaritgerðar sinnar frá LHÍ. Hún tekur fram að mikill munur sé á því þegar fólk föndrar eftirlíkingu til einkanota og að framleiða eftirlíkingu til almennrar sölu. „Þetta er tvennt ólíkt. Hið síðarnefnda er ólöglegt og sýnir um leið mikið virðingarleysi fyrir vinnu annarra."

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.