Skoðun

Frændi minn er með krabbamein

Bergur Hauksson skrifar
Frændi minn er með krabbamein og var eitthvað ósáttur við að vera sendur heim af spítalanum vegna þess að tæki sem er hluti af meðferð hans var bilað. Samkvæmt fréttum þá kostar svona tæki um fjögur hundruð milljónir króna. Það eru ekki til peningar segja stjórnmálamennirnir sem hafa sumir unnið myrkranna á milli í þrjú ár og eru orðnir þreyttir. Ég sagði frænda mínum að vera ekki að þessu væli, honum væri ekki vorkunn, stjórnvöld væru alltaf að hugsa um hann en það væru ekki til peningar. Honum væri nær að hugsa um þreyttu stjórnmálamennina sem væru alltaf að vinna, enginn vorkenndi þeim.

Frændi minn sagði þá að þetta snerist um forgangsröðun. Ég sagðist nú þekkja það, stjórnmálamennirnir hefðu sagt okkur að þeir forgangsraði og ekki ljúga þeir. Frændi minn sagði þá að forgangsröðunin væri ekki rétt. Ég sagði að nú væri hann ósanngjarn, stjórnmálamennirnir hafa sagt okkur að þeir hafi lagt áherslu á að skera niður á réttum stöðum og halda verndarvæng yfir þeim sem minna mega sín. Frændi minn maldaði eitthvað í móinn milli þess sem hann kastaði upp.

Loksins þegar hann gat talað aftur sagði hann: En væri það ekki rétt forgangsröð að kaupa nýtt geislatæki svo meðferð krabbameinsjúklinga gæti verið með eðlilegum hætti. Og einnig að veitt yrði fjárveiting fyrir öðrum tækjum sem spítalinn þarf á að halda bætti hann við. Ætti ekki frekar að veita fjármunum í þessi tækjakaup en að styrkja stjórnmálaflokkana um hundruð milljóna króna á ári eða styrkja einhver barnaheimili norður í landi sem eru hætt starfsemi eða gera jarðgöng sem kosta milljarða króna og engin þörf er á, væri það ekki meira í anda hugsjóna stjórnmálaflokkanna spurði hann.

Ég náði ekki að svara honum áður en hann rauk inn á klósett. Vanþakklætið í fólki hugsaði ég, getur fólk aldrei unnt öðrum neins, það eru ekki til peningar í allt og hann frændi minn verður að skilja að það verður að forgangsraða! Vonandi verður hann orðinn góður þegar göngin verða tilbúin svo hann geti að minnsta kosti notað þau, hugsaði ég og gekk út.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×