Innlent

Ekkert sem bendir til árásar á barn

Bakkahverfið í Breiðholti Lögreglan segir allt benda til þess að maður hafi borið ljúgvitni um líkamsárásarmál í Bökkunum á föstudag.
Bakkahverfið í Breiðholti Lögreglan segir allt benda til þess að maður hafi borið ljúgvitni um líkamsárásarmál í Bökkunum á föstudag.
Rannsókn lögreglu á meintri líkamsárás gegn sex ára dreng í Breiðholti á föstudag hefur engan árangur borið. Samkvæmt upplýsingum frá Gylfa Sigurðssyni, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi, bendir allt til þess að atvikið hafi ekki átt sér stað.

Þórarinn Engilbertsson knattspyrnuþjálfari sagði í samtali við Fréttablaðið á sunnudag að hann hefði orðið vitni að, og stoppað, grófa líkamsárás á fótboltavelli í Bökkunum í Breiðholti á föstudag, þar sem fjórir tólf til þrettán ára drengir hefðu handleggs- og kinnbeinsbrotið sex ára dreng vegna bolta. Þórarinn sagðist þá hafa verið í töluverðu sambandi við foreldra litla drengsins, sem „ætluðu að leysa málið innbyrðis, án aðkomu lögreglu“. Hann sagði skólayfirvöld og alla sem hlut áttu að málinu, vita hverja um ræddi.

Þórarinn dró úr vitnisburði sínum í samtölum við fjölmiðla á mánudeginum. Þá sagði hann barnið hafa tognað og hlotið heiftarlegar blóðnasir, en ekki beinbrotnað. Hann var kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu, þar sem hann sagðist ekki getað gefið neinar upplýsingar um foreldra drengsins eða annarra sem hlut áttu að máli.

Lögreglan hefur haft samband við sjúkrahús, leik- og grunnskóla á svæðinu, en enginn kannast við umrætt atvik. Allar þær upplýsingar sem Fréttablaðið hefur greint frá um áverka sem barnið á að hafa hlotið, koma frá Þórarni.

„Ég viðurkenni að hafa ýkt um meiðslin, en restina stend ég við,“ segir Þórarinn. Hann segir starfsferil sinn settan að veði ef hann segist hafa verið að segja fjölmiðlum og lögreglu ósatt.

Fréttablaðið harmar að hafa fallið í þá gryfju að treysta orðum ósannsöguls heimildarmanns. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×