Skoðun

Ben Stiller og samkeppnishæfni

Þórey Vilhjálmsdóttir skrifar
Fréttir af Ben Stiller og fylgdarliði hans hafa verið áberandi á síðustu vikum og mánuðum. Það er ekki hægt annað en vera stoltur af athyglinni sem vakin er á landinu okkar með veru hans og annarra kvikmyndastjarna hér. En það er vert að minna sig á það af hverju þau eru hér. Við viljum gjarnan tengja það beint við okkar stórbrotna landslag og fögru náttúru sem að sjálfsögðu eiga þar stóran þátt. En fyrst og fremst komum við til greina sem tökustaður fyrir stórmyndir eins og „The Secret life of Walter Mitty" vegna laga um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar sem sett voru árið 1999. Lögin byggja á því að veita endurgreiðslu á 20% af framleiðslukostnaði kvikmynda sem fellur til á Íslandi. Við setningu þessara laga varð Ísland samkeppnishæft á alþjóðlegum vettvangi sem tökustaður fyrir erlendar stórmyndir.

Það þarf ekki að taka fram hversu mikil og góð áhrif lögin hafa haft á greinina en í dag starfa um 800 manns við kvikmyndagerð á Íslandi og eru þar ótalin öll þau afleiddu störf sem falla til en talið er að þau séu allt að þrisvar sinnum fleiri. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að missa fólkið okkar úr landi í þessari grein – miklu frekar höfum við verið að fá fólkið okkar aftur heim sem starfað hefur við kvikmyndagerð erlendis.

Staða kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi í dag er staðfesting á því að þegar ríkisvaldið sleppir tökunum, lækkar álögur og leyfir einkaframtakinu að njóta sín þá njóta allir góðs af því. Nú stendur til að hækka álögur á ferðaþjónustu þannig að nánast verður útilokað fyrir fyrirtækin að vera áfram samkeppnishæf alþjóðlega. Það gilda nákvæmlega sömu lögmál í ferðaþjónustunni og að markaðssetja Ísland sem tökustað. Ef skattaumhverfið er ekki samkeppnishæft þá komum við ekki til greina – við erum ekki á listanum. Ef við ætlum að nýta þann meðbyr sem Ben Stiller og félagar hans hafa veitt okkur þá hækkum við ekki álögur á ferðaþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×