Skoðun

Vilja konur láta nauðga sér?

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Töluverð umræða hefur sprottið í kjölfar útgáfu bókar þar sem konur lýsa kynferðislegum fantasíum sínum. Án þess að hafa séð umrædda bók hef ég hnotið um umfjöllun þar sem spurt er hvort skrif af þessu tagi séu til þess fallin að endurvekja mýtuna um að innst inni þrái konur að láta nauðga sér. Þýðir nei kannski ekki nei?

Mér finnst brýnt að árétta að himinn og haf eru á milli fantasíu um að vera þvingaður til kynlífsathafna og raunverulegrar nauðgunar. Í fantasíunni er hugmyndin sköpuð af konunni og henni er stjórnað af konunni. Konan ákveður að hún vilji láta yfirbuga sig. Hún velur hinn aðilann, hún ræður hvar atburðurinn á að gerast, hún ákveður hvað gert verði við hana og hún stjórnar hvenær því lýkur. Í raunverulegri nauðgun er öllum formerkjum umturnað. Konan vill ekki láta nauðga sér, Hún hefur enga stjórn, hvorki á aðstæðum né atburðarás. Þolendur nauðgana finna hvorki fyrir spennu eða nautn heldur sársauka, hræðslu, vanmætti og niðurlægingu og margir óttast um líf sitt.

Hvað er málið með nauðgunar-fantasíur kvenna? Það sama á við um þær og aðrar fantasíur, þeim þarf að taka með fyrirvara. Um er að ræða hugarsmíð sem getur endurspeglað aðrar þrár konunnar, til dæmis að einhverjum finnist hún ómótstæðileg. Þær geta líka birt löngun hennar til að einhver sterkari en hún veiti henni óvæntan unað. Hins vegar snúast nauðgunarfantasíur, eins og aðrar kynlífsfantasíur, ekki eingöngu um skiljanlegar þrár og langanir. Kynlífsfantasíur fjalla oft um hið forboðna og eru öðrum þræði knúnar af kenndum sem vekja blygðun. Þess vegna bera fæstir þær á torg. Margar konur hryllir við fantasíum um nauðgun en á aðrar virka þær örvandi. Það þýðir ekki að viðkomandi konur langi í ofbeldi, þær séu undirgefnar karlmönnum eða alltaf til í tuskið. Það þýðir einfaldlega að heimur fantasíunnar lýtur allt öðrum lögmálum en veruleikinn.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×