Skoðun

Velsæld og lífskjör

Ólafur Páll Jónsson skrifar
Oft er reynt að telja okkur trú um að helsta markmið hverrar óbrjálaðrar manneskju sé að hámarka eigin velsæld. Samt blasir við hverjum þeim sem gefur sér tíma til að íhuga eigið gildismat, að þetta er ekki fyrsta boðorð hinnar óbrjáluðu skynsemi heldur brjálsemin sjálf. Velsæld er mæld í krónum og fermetrum, en skynsamlegt mat á góðu lífi hefur lítið með þess konar stærðir að gera.

Velsæld og góð lífskjör eru sitt hvað. Húsbóndi sem hefur hirð þræla í kringum sig kann að njóta velsældar en hann nýtur ekki góðra lífskjara. Velsældin birtist í því að sérhverri löngun hans er fullnægt með lítilli fyrirhöfn hans sjálfs. En hann býr ekki við góð lífskjör – góð kjör fyrir manneskjulegt líf – vegna þess að líf hans byggist á þrælahaldi, á því að mannréttindi annars fólks séu lítilsvirt. Þetta er líf sem hefur ójöfnuð að forsendu.

Að búa við góð kjör gerir ráð fyrir því að líf manns byggist ekki á kúgun og mannréttindabrotum. Vissulega getur manni, sem byggir velsæld sína á kúgun, liðið vel í fávisku sinni og skeytingarleysi. En tæpast verður það líf kallað gott sem hefur fávisku að forsendu.

Ef við viljum lifa góðu lífi verðum við að taka siðferðilega stöðu okkar alvarlega. Sú staða varðar m.a. samskipti við samferðafólk okkar og hvaða rækt við leggjum við stofnanir samfélagsins. En hún varðar líka það hvernig við ýmist búum í haginn eða gröfum undan tækifærum komandi kynslóða til að lifa vel. Hvernig athafnir okkar stuðla leynt eða ljóst að því að viðhalda eða uppræta barnaþrælkun í fjarlægum löndum og margvíslegt misrétti.

Sú var tíðin að líf á Íslandi var með slíkum hörmungum að ótrúlegt má virðast að lifandi fólk skyldi skríða út úr moldarkofnum þegar snjóa leysti á vorin. Nú er tími velsældar. En ef við viljum búa við góð kjör frekar en einbera velsæld, þá verðum við að taka siðferðilega afstöðu til lífsins – til okkar sjálfra og annarra.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×