Hvernig standa framboðsmál Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi?
Óhætt er að segja að tíðindi af framboðsmálum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi hafi komið á óvart. Varaformaðurinn, Birkir Jón Jónsson, tilkynnti fyrir helgi að hann hygðist ekki gefa kost á sér til setu á lista flokksins fyrir næstu kosningar. Flokkurinn á tvo þingmenn í kjördæminu, Birki og Höskuld Þórhallsson.
Tvennum sögum fer af því sem næst gerðist í atburðarásinni. Sigmundur Davíð segist hafa rætt við Höskuld um þá fyrirætlun sína að sækjast eftir efsta sætinu í kjördæminu. Höskuldur segist hins vegar aðeins hafa fengið skilaboð frá Sigmundi um að þeir þyrftu að ræða saman.
Sé útgáfa Höskuldar rétt er staðan sú að formaðurinn sækir að honum í fyrsta sætið, en hafi Sigmundur Davíð rétt fyrir sér er það akkúrat öfugt; Höskuldur tilkynnti um framboð í fyrsta sætið vitandi að formaðurinn hygðist gera slíkt hið sama.
Raunar hefur Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri flokksins, staðfest orð Sigmundar Davíðs. Höskuldur segir, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, að það sé rangt hjá Hrólfi.
Sigmundur Davíð og Höskuldur funduðu um málið í gær en ætla báðir að halda framboði sínu til streitu.
Það er ekki í fyrsta skipti sem Framsóknarmenn velja á milli þeirra tveggja. Báðir voru í framboði til formanns í janúar 2009, ásamt Páli Magnússyni. Í síðari umferð var kosið á milli Sigmundar og Höskuldar og hlaut Sigmundur 449 atkvæði en Höskuldur 340. Fyrir mistök var Höskuldur reyndar lýstur sigurvegari, en það leiðrétt skömmu síðar.
Ákvörðun Sigmundar Davíðs kemur heimildarmönnum Fréttablaðsins á óvart. Sigmundur hafi heilmikil tengsl við Reykjavík, en þar hefur hann setið í skipulagsráði. Áður en hann varð formaður vakti hann athygli fyrir tillögur um skipulag borgarinnar.
Hins vegar er ekki á vísan að róa varðandi þingsæti í kjördæmi Sigmundar, Reykjavík norður. Viðskiptablaðið greindi frá því í mars að samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup næði Sigmundur Davíð ekki kjöri í kjördæminu.
Hvorki Sigmundur Davíð né Höskuldur vildu tjá sig við Fréttablaðið í gær.
kolbeinn@frettabladid.is
Deila um hver vissi hvað um framboðið - fréttaskýring

Mest lesið




Ofbýður hvað Reykjavík er ljót
Innlent






Ása Steinars vann sigur gegn bandarísku markaðsfyrirtæki
Viðskipti erlent