Skoðun

Sið­bót á Al­þingi

Mörður Árnason skrifar

Í frumvarpi sem við Valgerður Bjarnadóttir og níu aðrir þingmenn höfum lagt fram á þinginu er gert ráð fyrir að alþingismenn hætti með öllu að skammta sér laun. Þetta er í þriðja sinn sem við Valgerður flytjum frumvarp um kjör þingmanna, og nú er von til að eitthvað gerist – vegna þess að margir þingmenn hafa undanfarið tekið undir gagnrýni í samfélaginu á ýmsar sporslur sem úthlutað er á þinginu. Nú síðast um gleraugu, heyrnartæki, líkamsrækt og svo framvegis aftan í sakleysislegu þingskapafrumvarpi núna í vor.



Við leggjum til að allar ákvarðanir um laun þingmanna, svokallað þingfararkaup og tengdar greiðslur, verði framvegis í höndum Kjararáðs. Nú er ákvörðun um grunnlaun hjá Kjararáði, en í lögum um þingfararkaupið eru ákvæði um að alls kyns störfum og titlum á þinginu fylgi álagsgreiðslur, 5–30%. Formenn nefnda og þingflokka fá álag, formenn stjórnarandstöðuflokka, fólk í forsætisnefnd, varaformaður nefndar fær álag og meira að segja 2. varaformaður nefndar, titill sem var búinn til í fyrra í nánast fullkomnu tilgangsleysi, hann fær álag blessaður garmurinn. Staðan er núna þannig að um það bil 38 þingmenn fá svona álagsgreiðslu, af þeim 54 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum. Bara 16 eru álagslausir – eins konar undirstétt á þinginu!



Flutningsmenn frumvarpsins eru ekki einkum að hugsa um peningaþáttinn í þessu, heldur fyrst og fremst prinsippið. Annaðhvort tekur Alþingi á sig þá ábyrgð alla að ákveða laun þingmanna – eða felur öðrum, Kjararáðinu, að sjá um þetta allt. Núverandi ástand býr til feluleik með raunveruleg laun kjörinna fulltrúa. Það er í andstöðu við þá siðbót sem við erum að reyna í samfélaginu eftir hrun, og á að ljóma skærast á sjálfu Alþingi.




Skoðun

Sjá meira


×