Skoðun

Ábyrg stjórnmál

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Margt hefur áunnist frá efnahagshruninu á haustdögum 2008 og ýmislegt hefur verið vel gert. Engu að síður er mikil þrekraun fram undan. Greiða þarf niður skuldir á næstu árum og varðveita þannig efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Það verður ekkert áhlaupaverk, en samt vel gerlegt ef ástunduð eru ábyrg stjórnmál næsta áratuginn. Helsta hættan er sú að flokkarnir falli í hefðbundið far og lofi stórfelldum nýjum útgjöldum úr ríkissjóði. Því miður eru fyrstu kosningatilboðin komin fram bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Staðreyndin er sú að þetta eru innistæðulaus fyrirheit og auka aðeins á vandann.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður halli á rekstri ríkissjóðs sem nemur 60 milljörðum króna á næsta ári. Í vaxtagjöld fara 15% af tekjum ríkisins eða um 88 milljarðar króna. Á komandi kjörtímabili 2013-17 er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin verði samtals um 370 milljarðar króna. Til samanburðar eru barnabætur næsta árs áætlaðar 10,7 milljarðar króna. Vaxtagjöldin verða aðeins til þess að skerða þjónustu hins opinbera, nú eða síðar. Fyrir peninga sem fara til þess að greiða gamlar skuldir fæst engin velferð. Eina skynsama leiðin er að lækka skuldir og lækka vaxtakostnaðinn. Þegar það hefur verið gert er hægt að auka við í velferðarkerfinu.

Fjármálaráðherra hefur sett fram það markmið að greiða niður skuldir á viðunandi stig á tíu árum. Til þess að svo megi verða þarf að lækka þær um 75 milljarða króna á hverju ári. Að auki eru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar sem virðist óhjákvæmilegt að falli á ríkið, alls um 430 milljarðar króna. Augljóst er að auka þarf tekjur ríkisins og lækka útgjöld til þess að ná fram nauðsynlegum afgangi. Annars er voðinn vís ef áfram verður lifað um efni fram. Það er hægt að auka veiðar á þorski umtalsvert á næstu árum og nýta aðrar náttúruauðlindir meira. En það þarf að endurskipuleggja rekstur hins opinbera og finna leiðir til þess að veita svipaða þjónustu og velferð með minni kostnaði. Ábyrg stjórnmál eru stóra pólitíska verkefnið sem blasir við í aðdraganda næstu alþingiskosninga.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×