Skoðun

Jafnt vægi atkvæða

Guðmundur Gunnarsson skrifar
Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu stjórnskipulagi að allir þegnar samfélagsins hafi jafna möguleika til þess að hafa áhrif á stjórn landsins. Atkvæði allra kjósenda vegi jafnt þegar gengið er til kosninga. Á þetta var lögð mikil áhersla á Þjóðfundinum og hefur þetta verið áberandi krafa á öllum stigum við endurnýjun stjórnarskrárinnar. Andstæðingum þessa brýna máls hefur tekist að gera þetta að deilumáli milli landsbyggðar og þéttbýlis á SV-horni landsins. Þetta misvægi er að hluta til afleiðing búsetuflutninga frá dreifbýli til þéttbýlis, ekki meðvitað pólitískt markmið. En það veldur aftur á móti að mikil völd eru í höndum flokksmaskínanna, sakir þess að núgildandi kosningakerfi er þannig að allt að 2/3 þingsæta eru fyrir fram örugg og tryggir núverandi flokkakerfi.

Landsbyggðin hefur alltaf átt fleiri fulltrúa á þingi en íbúahlutfall segir til um. Miklar breytingar voru gerðar til bóta með kjördæmabreytingunni árið 1959 og síðar með nýrri kjördæmaskipan. Í alþingiskosningum 2009 voru um 2.400 kjósendur á kjörskrá að baki hverjum kjörnum þingmanni í Norðvesturkjördæmi en tæplega 5.000 í Suðvesturkjördæmi. Þingmaður í Suðvesturkjördæmi þurfti þannig að fá ríflega tvöfalt fleiri atkvæði en þingmaður í Norðvesturkjördæmi til að ná kjöri.

Eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru hér á landi og fylgdust með síðustu alþingiskosningum. Í skýrslu ÖSE um kosningarnar var bent á að misvægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar væri alltof mikið. Reglur ÖSE kveða á um að misvægið milli einstakra kjördæma sé innan 10% og aldrei meira en 15%. Mismunurinn hér fór aftur á móti upp í 100% og taldi ÖSE að tímabært væri að huga að endurskoðun á viðkomandi lagaákvæði um dreifingu þingsæta.

Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV-horninu er málum gjarnan stillt upp með þeim hætti, að dreifbýlið búi við einhvers konar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða. Með því sé stuðlað að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu. Þessu er haldið fram þrátt fyrir að um áratugaskeið hafi verið mikið misvægi atkvæða og atvinnuleysi og slök félagsleg staða hér á landi er mest í úthverfum höfuðborgarsvæðisins.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er lagt til í 39. grein að öll atkvæði á landinu vegi jafnt. Alþingi geti ákveðið hvort landið verði eitt kjördæmi en skipt því upp í allt að átta kjördæmi. Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að hægt sé að setja lágmörk sem tryggi hverju kjördæmi lágmarksfjölda þingmanna í réttu hlutfalli við fjölda kjósenda viðkomandi kjördæmis. Þetta er lágmarkstrygging því kjördæmin munu fá að jafnaði fleiri þingmenn en svarar til kjósendafjölda, sérstaklega ef þar eru frambjóðendur sem höfða til kjósenda utan síns kjördæmis. Ástæða er að benda á að langflestir íbúa SV-hornsins eiga rætur í öðrum landsvæðum og eru með miklar tengingar þangað. Það er líklegt að sum kjördæmi fái fleiri þingsæti en svarar til kjósendatölu. En það er þá að vilja kjósenda annars staðar að af landinu, en ekki fyrir skikkan kosningakerfisins eins og nú er.

Listar verða boðnir fram á kjördæmavísu en líka landsvísu. Frambjóðandi á kjördæmislista má jafnframt vera á landslista síns flokks eða samtaka, en þar mega líka vera frambjóðendur utan kjördæma. Kjósandi getur valið einstaklinga, jafnvel af mörgum listum. Gagnvart kjósendum er landið því sem eitt kjördæmi. Frambjóðandi hlýtur að jafnaði að tala til kjósenda í kjördæmi sínu en líka höfða til allra landsmanna, vilji hann hljóta stuðning utan kjördæmis síns. Þannig nást kostir landskjörs, sem kallar fram ábyrgð þingmanna gagnvart öllum landslýð, en um leið er trygging fyrir því að rödd hverrar byggðar heyrist á Alþingi.

Misvægi atkvæða hér á landi hefur leitt til þess að við búum við klúðurslegt kosningakerfi, þar sem reynt er að tryggja jöfnuð milli flokka með flóknu jöfnunarsætakerfi. Með jöfnu atkvæðavægi geta úthlutunarreglur orðið einfaldari. Í stjórnarskrám er það grundvallarregla að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum og njóta sömu mannréttinda. Lýðræðið getur ekki verið stigskipt. Það er stjórnarskrárbrot að tala um hálf mannréttindi í kosningarrétti og í öðrum lýðréttindum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×