Skoðun

Launamerkið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
Í auknum mæli skreyta fyrirtæki sig umhverfismerkjum. Það er bæði þarft og snjallt. Eins eru félög í meiri mæli farin að huga að hollustuþáttum í ímynd sinni, svo og vottun um réttindi vinnuafls, uppruna hráefnis og sanngjörn viðskipti. Allt er þetta vel.

Tímabært er að fyrirtæki, jafnt þau opinberu og einkareknu, merki sig mannvernd. Þar þarf sérstaklega að huga að launajöfnuði, sem er og verður, þar til honum verður útrýmt, einhver mesti ljóður á starfsemi fyrirtækja, hér á landi sem erlendis.

Snjallt væri að taka upp Launamerkið, sem þau fyrirtæki ein, sem geta sannað fullan launajöfnuð innan sinna raða, geta prýtt sig með í bak og fyrir. Ég yrði stoltur af því að skipta við slík fyrirtæki – og liti innan tíðar þau félög hornauga, sem ekki státuðu af slíku.

Eðlilegt er að Launamerkið lúti sömu lögmálum og önnur stöðluð vottun sem að ofan greinir; þar til bær stofnun veitti heimild fyrir notkun merkisins, að undangenginni skoðun á launabókhaldi. Hinn kostinn þekkjum við: Launabil kynjanna þrífst á launaleynd.

Viðvarandi launamunur kynjanna, sem lítið hefur skánað á undanliðnum árum, er mjög alvarleg meinsemd í samfélaginu. Ráðstefnur, skýrslur og úttektir á vandanum eru góðra gjalda verðar, en við dagsbrún nýrrar aldar er rík þörf á aðgerðum og lausnum.

Spyrja má hvort fyrirtæki hafi hér eitthvað að óttast. Ég held þvert á móti að öll ábyrg fyrirtæki vilji hafa hér hreint borð. Fátt bætir ímynd þeirra jafn mikið og að þau komi eins fram við konur og karla sem fyrir þau starfa. Og er hér ekki tími til kominn?

Ein dætra minna fer brátt á vinnumarkað. Hún er að mennta sig í háskóla. Við henni mun blasa verulegur, en óútskýrður launamunur. Yngsta dóttir mín fer á vinnumarkað eftir fimmtán ár. Ef fram heldur sem horfir – og án lausna – mun það sama blasa við henni.




Skoðun

Sjá meira


×