Innlent

Stjórnin verði beðin að víkja

Vilhjálmur vissi um stöðuna fyrir einu og hálfu ári en ekki tókst að bjarga fjárhagnum.
Vilhjálmur vissi um stöðuna fyrir einu og hálfu ári en ekki tókst að bjarga fjárhagnum.
Ríkisendurskoðun hefur hafnað beiðni stjórnar hjúkrunarheimilisins Eirar um að taka út starfsemi og rekstur þess. Ríkisendurskoðun telur það ekki í sínum verkahring.

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna daga er Eir tæknilega gjaldþrota og skuldar átta milljarða króna.

Íbúar í öryggisíbúðum Eirar höfðu ákveðið að bíða niðurstöðu Ríkisendurskoðunar áður en aðhafst yrði frekar í málinu. Í gærkvöldi hafði ekki verið tekin nein ákvörðun um framhaldið samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Líklegt er að þess verði krafist að stjórn Eirar segi af sér, taki hún ekki ákvörðun um það sjálf áður. Fundað verður áfram um málið í dag.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, stjórnarformaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Eirar, vissi af slæmri stöðu hjúkrunarheimilisins fyrir einu og hálfu ári. Í síðustu fundargerð stjórnarinnar kemur fram að fjármálastjóri sendi honum tölvupóst um stöðuna. Þeir gerðu fjárhagsáætlun til að bregðast við vandanum, en hún gekk út á að selja íbúðarétti og gera leigusamninga og fá þannig 662 milljónir á sextán mánuðum. Þrátt fyrir að þessar áætlanir hefðu gengið eftir hefði tapið samt verið ein og hálf milljón króna á mánuði.

„Auðvitað líður mér ekki vel með þá stöðu sem er komin upp – við höfum brugðist við þessu af fullum krafti. Það er hægt að leysa þetta af góðum vilja þannig að sú lausn geti vonandi tryggt að íbúðareigendur verði ekki fyrir skaða. Ég vil vera bjartsýnn á að okkur takist það,“ sagði Vilhjálmur í gær. - þeb, aó




Fleiri fréttir

Sjá meira


×