Skoðun

Tilgangur „sér“þjónustu

Toshiki Toma skrifar
Þekkið þið „sérþjónustuprest“? Sérþjónustuprestur er t.d. fangaprestur eða prestur fatlaðra, sem sé, prestur sem starfar fyrir tiltekið málefni eða hjá stofnun eins og spítala eða elliheimili. Þeir eru ekki bundnir við sókn, sem er hefðbundin grunneining í skipulagi kirkjunnar. Að því leyti eru þeir „sér“. Nú starfa um 18 prestar fyrir fanga, fatlað fólk, innflytjendur, sjúklinga á spítölum o.fl.

En af hverju sérþjónustuprestar? Tvær spurningar munu koma upp. Í fyrsta lagi, geta prestar í sóknum ekki sinnt málum sem tilheyra sérþjónustu? Í öðru lagi, hvetur „sérþjónustan“ ekki til aðskilnaðar tiltekins hóps frá öðrum, eins og fatlaðs fólks frá öðrum?

Fyrstu spurningunni er auðsvarað. Oftast krefst ákveðið málefni meiri sérþekkingar en í venjulegu prestsstarfi. Og einnig tekur það mikinn tíma að sinna fólki almennilega. Ef maður sér hve mikið sjúkrahúsprestur er upptekinn í sinni þjónustu, mun þessi fyrsta spurning hverfa.

Síðari spurningunni mun ég svara þannig. Tilgangur sérþjónustunnar er ekki að aðskilja ákveðið fólk frá öðru fólki. En það er satt að við þurfum að veita fólki með t.d. fötlun eða fólki í sérstökum aðstæðum eins og fangelsi öðruvísi þjónustu. En það sem við sérþjónustuprestar sjáum í þjónustu okkar er ekki fötlun, sjúkdómur eða framandi tungumál, heldur mætum við manneskjum.

Ég vil meina að aðgreining milli hefðbundinnar prestsþjónustu og sérþjónustu sé einungis tæknileg. Sérþjónustuprestar nota öðruvísi nálgun en sóknarprestar til að kafa í málin í mismunandi og oft erfiðum aðstæðum, í þeirri viðleitni að mæta fólki í þeim aðstæðum sem það er statt og styðja það. Við þjónum undir kjörorðinu: „Öll erum við Guðs börn.“




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×