Innlent

Fleiri rækta gras en fáir eiga uppskeruna

Karl Steinar Valsson
Karl Steinar Valsson
Heimaræktun á kannabisi hefur aukist á síðustu árum og ræktunin er orðin smærri í sniðum. Þetta gerir lögreglu erfiðara fyrir að uppræta starfsemina, að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það verður bylting í heimaræktun árið 2008 og þetta hefur haldist sveiflukennt síðan. En tölurnar okkar þurfa ekki að endurspegla hvort þetta sé að aukast eða ekki,“ segir hann. „Ræktanirnar voru stærri fyrst, en þær hafa minnkað. Nú eru þær minni og fleiri, sem þýðir að það tekur meiri tíma fyrir okkur að ná sama magni og áður og gerir okkur erfiðara fyrir.“

Karl Steinar segir að í flestum tilvikum standi skipulagðir hópar að baki starfseminni og skipti ræktun upp á fleiri staði. Þá veiti menn aðstoð við að setja hana upp.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem lögreglan fær hefur innflutningur á grasi nánast lagst af á síðustu árum. Langmest, ef ekki allt, kannabis á Íslandi er ræktað hér.

„Innflutningur sést nánast ekki lengur. Það hefur ekkert verið tekið síðasta ár,“ segir Karl Steinar. „Árið 2008 voru tekin meira en 200 kíló af hassi í einni ferð, sem var aðalfíkniefnið hér áður fyrr, en er það ekki lengur. Þetta hefur færst yfir í gras, sem er meira og minna verið að rækta allt hér á Íslandi.“

Lögreglan hefur gert meira en hálft tonn af kannabisi upptækt á Íslandi á árunum 2007 til 2011. Þar af eru um 230 kíló af hassi sem fundust árið 2008 í húsbíl sem var að koma til landsins með Norrænu. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×