Skoðun

Spámaður snýr aftur!

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Fræg er innkoma hins danska Lars Christensen í umræður um íslensk efnahagsmál árið 2006. Lars karlinn var ekki sleginn blindu á ójafnvægið, skuldsetninguna og hætturnar í íslensku efnahagsbólunni eins og flestir hér heima. Hann horfði á mælana, kannaði undirliggjandi hagvísa og dró sínar ályktanir um að hér stefndi í óefni og reyndist sannspár eins og við þekkjum. Nýfrjálshyggju- og útrásarliðið á Íslandi tók gagnrýni hans illa eins og yfirleitt öllu og öllum sem ekki tóku þátt í lofgerðarsöngnum um íslensku snilldina. Lars þótti vera veisluspillir sem stýrðist af litlu öðru en sérstakri tegund af danskri öfund og var þannig afgreiddur út úr umræðunni.

Áhugi erlendra fjárfesta vaxandi

Nú er Lars mættur hingað í annað sinn eftir hrun með Íslandsgreiningu sína og samstarfsmanna hjá Danske Bank í farteskinu. Hin fyrri, fyrir einu og hálfu ári eða svo, var fremur jákvæð í garð þess árangurs sem þá hafði náðst frá hruni og rímaði ekki illa við skrif mín um landris í efnahagsmálum. Ekki tók nú stjórnarandstaðan beinlínis kollhnís af gleði vegna fyrri heimsóknar Lars Christensen hingað eftir hrun ef ég man rétt, enda boðaði hún svartnætti dag eftir dag.

En hver er í hnotskurn boðskapur Lars Christensen í nýrri greiningu hans? „Þetta gæti verið betra en er nú ekki svo slæmt“ (lausleg þýðing á yfirskrift kynningar hans á fundi VÍB). Á Íslandi er hagvöxtur meiri og verður að öllum líkindum meiri á næsta ári en á a.m.k. þremur hinna Norðurlandaríkjanna og nær flest öllum ríkjum Evrópu. Atvinnuleysi er minnkandi og hefur lækkað hraðar en Lars og félagar reiknuðu með í síðustu spá. Hér er kominn viðunandi stöðugleiki, fjármálakerfið komið í gang, grunnur einkaneyslu er þokkalega traustur og fjárfestingar þokast upp á við. Lars hefur ekki tiltakanlegar áhyggjur af verðbólgu og telur ekki þörf fyrir meira peningalegt aðhald nema síður sé. Áhugi erlendra fjárfesta fer vaxandi á Íslandi þó að höft á fjármagnshreyfingar fæli frá og ofan af þeim telur Lars þurfa að vinda svo fljótt sem auðið er.

Ekki afgreiddur sem vinstri „agent“

Sem sagt, að mati hins danska spámanns er efnahagslífið á réttri leið. Og ekki verður maðurinn afgreiddur sem vinstri „agent“ eða málpípa ríkisstjórnarinnar. Lars lýsir sjálfum sér sem hörðum markaðssinna og höllum undir kenningar Milton Friedman. Nei, þetta er sami maður og sagði okkur til syndanna 2006 og reyndist því miður hafa rétt fyrir sér. Er ef til vill ástæða til að taka mark á honum nú eða eigum við að afgreiða hann aftur úr umræðunni með ódýrum hætti og fylgja leiðsögn Bjarna Ben og Sigmund Davíðs í efnahagsmálum um að heimurinn sé að farast?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×