Skoðun

Þríhliða þras eða þjóðarsátt?

Gagnkvæm virðing var ekki það fyrsta sem kom í hugann þegar Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Arnbjörnsson mættu í Kastljós sl. fimmtudag. Þrátt fyrir öll stóru orðin sem flugu á báðar hendur í þættinum eru skilaboðin í raun mun innihaldsríkari: Það leikur mikill vafi á því að lykilstofnanir í samfélaginu og stjórnmálamenn ráði við það verkefni að tryggja efnahagslega framtíð þjóðarinnar. „Svik“ og önnur sambærileg hugtök eru ekki hluti af þeirri vegferð.

Hefðbundnar kjaradeilur eiga að heyra fortíðinni til. Það er hvorki launþegum né atvinnurekendum í hag að fara inn í nýtt tímabil verðbólgu með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun. Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að kaupmáttur almennings minnkaði verulega eftir hrun, þó svo að hann hafi tekið við sér aftur eftir síðustu kjarasamninga. Fyrirtækin standa almennt fremur höllum fæti og hafa því ekki mikið rými fyrir frekari launahækkanir. Staða hins opinbera er vel þekkt – þar er ekki heldur rými fyrir hækkanir.

Engin töfralausn til

Það er engin töfralausn til og það er ekki ábyrgt að skapa falskar væntingar. Vöxtur í verðmætasköpun, framleiðniaukning og stöðugt efnahagsumhverfi eru forsendur fyrir bættum kjörum almennings, fyrirtækja og hins opinbera. Launahækkanir og úrlausnir annarra mikilvægra verkefna við að bæta stöðu almennings og fyrirtækja verða að byggja á þessu forsendum. Stóra verkefnið er að taka höndum saman við að skapa slíkt umhverfi.

Framhaldið veltur að miklu leyti á því að okkur takist að leysa ýmis ágreiningsmál með gagnkvæmri virðingu, að við hindrum að atvinnulífið lamist vegna verkfalla og að jafnt stjórnvöld sem launþegar og atvinnurekendur axli sína ábyrgð og deili kjörum með öðrum. Það felur í sér að fyrirtæki og hið opinbera sýni ábyrgð þannig að launþegar geti treyst því að batnandi afkoma skili sér einnig til þeirra.

Við vísum til þjóðarsáttarinnar 1990 og þeirra jákvæðu áhrifa sem hún hafði á vinnumarkaðinn og efnahagslífið um langt árabil. Þar togaði gagnkvæm virðing og ábyrg hegðun þjóðina upp úr djúpum hjólförum staðlaðrar og staðnaðrar samningagerðar. Nú, 22 árum síðar, þurfum við að komast upp úr sömu hjólförum.




Skoðun

Sjá meira


×