Stöð 2 hefur í dag formlega útsendingu í háskerpu, HD, og verður þar með fyrst íslenskra sjónvarpsstöðva til að bjóða upp á reglubundnar útsendingar í háskerpu.
„Fyrsta háskerpurásin okkar fór í loftið fyrir allnokkru síðan, það var fyrri sportrásin, og seinni sportrásin fór í loftið í háskerpu í ágúst. Síðasti leggurinn er svo Stöð 2 sem fer í háskerpu nú. Þetta er þó búið að vera í undirbúningi í langan tíma," segir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2.
„Háskerpuútsending er margföld myndupplausn þannig að gæði sjónvarpsútsendingarinnar aukast til mikilla muna. Jóladagskráin okkar verður í leiftrandi háskerpu."
Til þess að geta tekið við háskerpuútsendingum þarf bæði háskerpusjónvarp og myndlykil sem tekur við háskerpu. Áskrifendur með nettengda myndlykla geta séð Stöð 2 í háskerpu, viðskiptavinir Vodafone á rás 502 og viðskiptavinir Símans á rás 203. Stöð 2 HD er líka aðgengileg í gegnum örbylgjuútsendingar.
Ekki verður rukkað HD-gjald fyrir aðgang að háskerpustöðvunum næstu þrjá mánuðina.
Stöð 2 send út í háskerpu
