Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma City sópaði meisturunum úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Durant fagnar með þjálfaranum Scott Brooks.
Kevin Durant fagnar með þjálfaranum Scott Brooks. Mynd/AP
Oklahoma City varð í nótt fyrsta liðið til að tryggja sér sigur í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta er liðið sópaði Dallas Mavericks úr leik.

Oklahoma City vann leik liðanna í nótt, 103-97, og þar með rimmuna 4-0. James Harden var öflugur í leiknum en hann skoraði 29 stig, þar af fimmtán í fjórða leikhluta.

Dallas var þó þrettán stigum yfir í upphafi fjórða leikhluta en þá skoraði Harden sjö stig í röð og hans menn komust á 12-0 sprett. Oklahoma City náði svo forystunni þegar um fimm mínútur voru eftir og hélt henni allt til loka.

Kevin Durant var með 24 stig og ellefu fráköst fyrir Oklahoma City en Dirk Nowitzky skoraði 34 stig fyrir Dallas í leiknum.

Sex ár eru liðin síðan að meisturum var síðast sópað úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það gerðist hjá Miami árið 2006.

LA Clippers vann dramatískan sigur á Memphis, 87-86, og er þar með komið í 2-1 forystu í þessari spennandi rimmu.

Rudy Gay fékk gott tækifæri til að tryggja Memphis sigur um leið og leiktíminn rann út en skot hans geigaði. Hann var stigahæstur í liði Memphis með 24 stig.

Lokasekúndur leiksins voru æsispennandi. Gay setti niður þrist þegar 12,9 sekúndur voru eftir og minnkaði muninn í þrjú stig. Clippers fór á vítalínuna og nýtti annað skotið sitt þar. Þá var staðan orðin 87-83.

Memphis brunaði í sókn og aftur setti Gay niður þriggja stiga körfu, nú þegar 8,9 sekúndur voru eftir. Þar með var staðan orðin 87-86. Brotið var á Eric Bledsoe sem klúðraði báðum sínum vítum.

Memphis náði frákastinu og Gay náði að koma sér í gott skotfæri. En í þetta sinn missti hann marks og sigur Clippers því staðreynd.

Chris Paul skoraði 24 stig og var með ellefu stoðsendingar fyrir Clippers. Blake Griffin var með sautján stig.

San Antonio vann Utah, 102-90, og er þar með komið í 3-0 forystu í rimmu liðanna. Tony Parker skoraði 27 stig fyrir San Antonio, þar af sextán í fjórða leikhluta.

Al Jefferson og Devin Harris skoruðu 21 stig hvor fyrir Utah en engu liði í sögu NBA-deildarinnar hefur unnið rimmu í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 3-0 undir.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×