Innlent

Færri greinast með HIV-smit

Haraldur Briem
Haraldur Briem
Fjórir einstaklingar hafa greinst með HIV-smit það sem af er ári, tvær konur og tveir karlar. Einn einstaklinganna er sprautufíkill og smitaðist í gegnum óhreina sprautunál, en hinir fengu veiruna við samfarir. Um er að ræða þrjá Íslendinga og einn útlending.

Á síðustu tveimur árum kom upp HIV-faraldur meðal sprautufíkla hér á landi. Í fyrra greindust 23 með veiruna, þar af þrettán sprautufíklar. Árið 2010 greindust 24 með HIV-smit, fleiri en nokkru sinni, þar af tíu sprautufíklar.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir greinilegt að faraldurinn sé í rénun.

„Þessi eini fíkniefnaneytandi sem hefur greinst í ár er með klár tengsl við hópinn í fyrra,“ segir hann. „Menn eru mikið að skoða þann hóp fíkniefnaneytenda, þar sem þetta var hópsýking sem tengdist sennilega einhverjum tilteknum atburði, hugsanlega einhverju sprautupartíi.“

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna, segir þetta góðar fréttir. Auðvitað verði að vona það besta þrátt fyrir að það sé einungis fjórðungur ársins sem sé búinn.

„Samtökin eru í stöðugu forvarnarstarfi og halda úti fræðslu, bæði meðal fólks sem hefur greinst með HIV og svo í skólum og öðrum stofnunum,“ segir hann og bætir við að það sé afar brýnt að halda umræðunni á lofti. „Vissulega eru ekki eins miklir fordómar og var áður, en þetta er samt svo mikið tabú.“

Einar segir marga HIV-jákvæða óttast höfnun frá samfélaginu; frá vinum sínum, fjölskyldu og á vinnustöðum. „Það er erfitt við þetta að eiga því þetta er svo mikið í þögninni,“ segir hann.

Hann bendir á að það sé afar brýnt fyrir fólk sem er í áhættuhóp að láta greina sig því með réttum lyfjagjöfum er í dag hægt að lifa með sjúkdómnum nær einkennalaust, gangi lyfjagjöfin vel. Og á meðan sjúkdómurinn er einkennalaus eru einstaklingarnir ekki smitandi.

Alls eru um 280 manns greindir með HIV á Íslandi í dag. Fyrsti einstaklingurinn greindist árið 1983 og fyrsta dauðsfallið úr alnæmi varð árið 1985. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×