Viðskipti innlent

Verne Global samdi við Opin kerfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Guðjónsson er forstjóri Opinna kerfa.
Gunnar Guðjónsson er forstjóri Opinna kerfa. mynd/ GVA.
Alþjóðlega fyrirtækið Verne Global opnaði í síðustu viku eitt fullkomnasta gagnaver heims að Ásbrú í Reykjanesbæ, sem kunnugt er. Fyrirtækið tilkynnti svo á fimmtudaginn að það hefur valið Opin kerfi sem samstarfs- og þjónustuaðila til stuðnings við starfsemi sína hér á landi. „Samstarf með fremsta þjónustuaðila landsins mun gera okkur kleift að hámarka ávinning viðskiptavina okkar," segir Tate Cantrell, framkvæmdastjóri tæknisviðs Verne Global í tilkynningu.

Samhliða þessum samningi mun Opin kerfi flytja hýsingarstarfsemi sína og innri kerfi í gagnaver Verne Global. „Með þessari samþættingu á starfsemi fyrirtækjanna er lagður grunnur að öflugu samstarfi sem mun styðja við okkur og viðskiptavini okkar," segir Tate jafnframt.

Gunnar Guðjónsson forstjóri Opinna kerfa, segir að sé litið til menntunarstigs íslensks vinnuafls, fjölda fyrirtækja í upplýsingatæknitengdri starfsemi, gæði menntastofnana okkar og fjölda nemenda í tæknitengdum greinum, sé enginn vafi á að Ísland hafi alla burði til þess að mæta þörfum gagnaversiðnaðar. Framtíðin sé spennandi og krefjandi en íslenskt samfélag þurfi að aðlagast hratt og áherslur stjórnvalda og menntastofnana varðandi tæknitengt nám þurfi að skerpa og styðja enn betur.

Verne Global er að þróa fyrsta gagnaver heims með jafnvægi í kolefnisútblæstri. "Með opnun gagnaversins er verið að mæta mikilli eftirspurn um hagkvæmni eignarhaldskostnaðar upplýsingatæknikerfa er byggir á vistvænni orku. Fjöldi erlendra fyrirtækja horfir til þess að nýta sér þetta einstaka hátækni gagnaver fyrir starfsemi sína. Opin kerfi er fyrirtæki með farsæla sögu, tryggan rekstur, einvala lið sérfræðinga og traust samband við erlenda birgja á borð við HP, Cisco, VM-Ware, Redhat og Microsoft. Þessir þættir og fleiri koma til með að tryggja viðskiptavinum Verne Global þá þjónustu og þann stuðning sem þeir þurfa til að ná árangri," segir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×