Skoðun

Þjófkenndur af FTT!

Þann 13. jan. sl. er viðtal við Jakob Frímann Magnússon, formann FTT (Félag tónskálda og textahöfunda) í Fréttablaðinu. Fyrirsögn greinarinnar er að YouTube hefur hafnað beiðni FTT um að greiða höfundarréttargjöld í sjóði íslenskra rétthafa. Það er skoðun Jakobs að við Íslendingar eigum heimsmet í YouTube- og Facebook-notkun. Í beinu framhaldi finnst honum rökrétt að ætla að við Íslendingar eigum heimsmet í þjófnaði af FTT í formi ólöglegs niðurhals á íslenskri tónlist. Þess vegna svíður þeim að geta ekki gjaldfært okkur vegna þessa meinta þjófnaðar okkar.

Fyrir liggur að YouTube hefur hafnað kröfunni. Þá er lausn FTT að þjófkenna alla Íslendinga sem nota netið og þeir krefjast ákveðins gjalds af hverri nettengingu. Það er algjörlega óháð notkun viðkomandi netnotanda og því hvort viðkomandi hleður nokkurn tíma niður tónlist. Jakob vitnar í að þetta yrði þá sambærilegt og þegar þeir síðast þjófkenndu alla Íslendinga sem kaupa skrifanlega geisladiska. Þeir komust þá upp með að fá fasta upphæð af hverjum seldum skrifanlegum geisladisk án tillits til hvaða nota geisladiskurinn var keyptur.

Svona framkoma er algjörlega út í hött og ótrúlegt að hugsa sér að FTT hafi fengið og fái ennþá, fasta fjárhæð af hverjum seldum skrifanlegum geisladisk á Íslandi óháð notkun. Helst minnir þetta mig á ránsfeng, þar sem hið opinbera er í hlutverki handrukkarans. Allur þjófnaður er ólíðanlegur og rétt er að taka undir sjónarmið FTT um að þeir sem stela eiga að borga. Með því að FTT komst upp með að rukka alla kaupendur skrifanlegra geisladiska eru þeir búnir að þjófkenna alla kaupendur skrifanlegra geisladiska. Það er fullt af nettengdu fólki, sem aldrei hleður niður tónlist, né skrifar tónlist á geisladiska. Og ég leyfi mér að fullyrða að flest fólk vill vera heiðarlegt og borga fyrir sína tónlist.

Borið saman við þjófnað úr verslunum þurfa vissulega allir viðskiptavinir að bera kostnaðinn, þar sem álagning verslunarinnar þarf að vera meiri. Sú rýrnun er vel mælanleg og er einfaldlega mismunur á magni keyptrar og seldrar vöru. FTT er hins vegar ekki með áþreifanlega vöru og hefur ekki neina möguleika á að meta umfangs þessa „meinta þjófnaðar“. Þess hagur er vitaskuld að meta umfangið sem mest, þ.e. ef áform ganga eftir. En þeir mega ekki komast upp með að ætla að hver einasti maður með nettengingu sé stelandi af þeim. Þeir ættu vissulega að hafa sönnunarbyrðina og þeir mega ekki komast einhliða upp með að fylla sjóði sína með því að rukka neytendur um þjónustu, sem þeir eru sannanlega ekki að nota.

Í lokin vil ég geta þess að mörg okkar höfum margborgað höfundarrétt. Þ.e. fyrst af keyptri gamaldags hljómplötu, síðan af geisladisk með sömu tónlist og svo þegar maður mætir í klippingu borgar rakarinn stefgjöld fyrir sama lag og viðskiptavinurinn er búinn að borga af.

Látum ekki þessa óhæfu yfir okkur ganga.




Skoðun

Sjá meira


×