Körfubolti

NBA: Sigurganga San Antonio heldur áfram | 19 sigurleikir í röð

Kendrick Perkins  miðherji Oklahoma reynir að troða boltanum í körfuna en Tim Duncan er til varnar.
Kendrick Perkins miðherji Oklahoma reynir að troða boltanum í körfuna en Tim Duncan er til varnar. AP
Sigurganga San Antonio Spurs í úrslitakeppni NBA deildarinnar heldur áfram. Í nótt hafði San Antonio betur gegn Oklahoma City Thunder, 101-99, í fyrstu viðureigninni i úrslitum Vesturdeildar. Argentínumaðurinn Manu Ginobili var stigahæstur í liði San Antonio með 26 stig og þar af skoraði hann 11 stig í fjórða leikhluta.

San Antonio skoraði 50 stig gegn 26 stigum Oklahoma inn í vítateignum og þar hafði hið reynslumikla lið San Antonio yfirburði. Í fjórða leikhlutanum skoraði San Antonio 16 stig í vítateignum en Oklahoma aðeins 2.

Tim Duncan skoraði 16 stig og tók 11 fráköst fyrir heimamenn og franski landsliðsmaðurinn Tony Parker skoraði 18 og gaf 6 stoðsendingar.

San Antonio hefur enn ekki tapað leik í úrslitakeppninni á þessu tímabili og var þetta 19. sigurleikur liðsins í röð ef síðustu leikirnir í deildarkeppninni eru taldir með. San Antonio hefur þar með jafnað met sem LA Lakers setti árið 2001 þegar liðið vann 19 leiki í röð í deildarkeppni og úrslitakeppni.

Oklahoma hefur alltaf haft yfirhöndina í rimmum sínum í úrslitakeppninni á þessu tímabili en liðið var með 9 stiga forskot þegar fjórði leikhluti hófst, 71-62. Kevin Durant var stigahæstur í liði Oklahoma með 27 stig og hann tók einnig 10 fráköst. Durant náði aðeins tveimur skotum á körfuna í fjórða og síðasta leikhlutanum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×