Innlent

ESB stefndi sér í mál gegn Íslandi til að viðhalda trausti á regluverki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Talsmaður stækkunarstjóra hjá Evrópusambandinu segir að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að óska eftir því að ganga inn í mál ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum hafi verið nauðsynleg til að viðhalda trausti á ESB-reglum um innistæðutryggingar. Hann segir að ákvörðunin hafi ekki bein áhrif á aðildarviðræður Íslands og ESB.

Framkvæmdastjórn ESB hefur óskað eftir því að fá að stefna sér til inn í mál ESA gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum. Þetta þýðir að framkvæmdastjórnin mun styðja ESA í málinu, en ESA heldur því fram að íslenska ríkið hafi brotið gegn tilskipun um innistæðutryggingar og skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að ábyrgjast ekki greiðslur á lágmarkstryggingunni fyrir sparifjáreigendur sem voru með Icesave-reikninga hjá Landsbankanum. En hvers vegna tók framkvæmdastjórnin ákvörðun um að gera þetta og mun þetta einhver áhrif hafa á aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins?

„Með þessu skrefi verndar framkvæmdastjórnin þörfina á skýrleika varðandi skyldur Íslands á sviði fjármálaþjónustu, auk skýrleika og samkvæmni í lögum ESB og EES og lagalegar skyldur EFTA-ríkja og ESB-ríkja. Slíkur skýrleiki er mikilvægur til að viðhalda trausti á ESB-reglum um innistæðutryggingar, innri markaðinn og loks á fjármálastöðugleika í Evrópu," segir Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Stano segir að framkvæmdastjórnin líti á þetta mál og aðildarviðræðurnar við ESB sem tvö aðskilin mál. Það sé mikilvægt að fá að hreint hverjar lagalegar skuldbindingar Íslands séu samkvæmt tilskipun um innistæðutryggingar.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta mál sem er fyrir EFTA-dómstólnum tengist á engan hátt umsókn Íslands að ESB heldur er þetta sérstakt lögfræðilegt ferli. Hins vegar verður geta Íslands til að beita reglum um fjármálaþjónustu, þar á meðal tilskipun um innistæðutryggingar, vandlega metin á meðan á umsóknarferlinu stendur. Við erum að vinna að framvinduskýrslu og þetta verður sjálfsagt nefnt þar."


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð: Rétt viðbrögð væru að gera hlé á viðræðum

Ísland ætlar ekki að mótmæla þátttöku framkvæmdastjórnarinnar í málarekstri ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Formaður Framsóknarflokksins segi að rétt viðbrögð íslenskra stjórnvalda væru að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB og lýsa vanþóknun á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×