Innlent

Mannréttindadómstóllinn mun taka annað mál Erlu til afgreiðslu

JHH skrifar
Erla Hlynsdóttir blaðamaður
Erla Hlynsdóttir blaðamaður
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur tilkynnt lögmönnum Erlu Hlynsdóttur, blaðamanns, að íslenska ríkinu hafi verið veittur frestur til 15. janúar 2013 til að skila athugasemdum sínum í máli sem Erla skaut til Mannréttindadómstólsins árið 2010 í kjölfar niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli Rúnar Þórs Róbertssonar gegn Erlu Hlynsdóttur og Sigurjóni M. Egilssyni frá 11. mars 2010. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmönnum hennar.

Með dómi Hæstaréttar var Erlu gert að greiða Rúnari Þór skaðabætur vegna umfjöllunar hennar í DV um dómsmál þar sem Rúnar Þór var ákærður fyrir kókaínsmygl. Erla telur stríða gegn ákvæði 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu að henni hafi verið gert að greiða skaðabætur fyrir ummæli í frétt þar sem hún vitnaði orðrétt í ákæruskjal í sakamáli, sem í eðli sínu er opinbert gagn. Þá er Erla einnig ósátt við að hún skuli hafa verið látin bera ábyrgð á fyrirsögn á forsíðu DV sem ritstjóri blaðsins samdi.

Þetta er annað tveggja mála sem Erla hefur vísað til MDE og dómstóllinn hefur tekið til frekari meðferðar. Þriðja mál hennar bíður enn afgreiðslu hjá Mannréttindadómstólnum. Fyrsta málinu lauk með dómi Mannréttindadómstólsins frá 10. júlí síðastliðnum þar sem íslenska ríkinu var gert að greiða Erlu bætur vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Viðar Már Friðfinnsson höfðaði gegn henni. Þar var henni var gert að greiða Viðari Má skaðabætur og málskostnað vegna ummæla í frétt, sem hún hafði sannanlega rétt eftir viðmælanda sínum. Hæstiréttur Íslands hafði áður synjað Erlu um leyfi til að áfrýja málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×