Körfubolti

Blindfullur Jason Kidd keyrði á símastaur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kidd og Paula Abdul á góðgerðarsamkomunni á sunnudag.
Kidd og Paula Abdul á góðgerðarsamkomunni á sunnudag. Nordicphotots/Getty
Körfuknattleiksmaðurinn Jason Kidd lenti í umferðarslysi nærri heimili sínu á Long Island í New York-fylki aðfaranótt sunnudags. Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu.

Kidd hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga enda skrifaði leikstjórnandinn 39 ára nýverið undir samning við New York Knicks í NBA-deildinni.

Bifreið Kidd, Cadillac Escalade, lenti á símastaur og hafnaði á endanum úti í skógi. Lögreglan var kölluð út rétt fyrir tvö eftir miðnætti og hann fluttur á sjúkrahús í nágrenninu en meiðsli hans voru minniháttar. Þvínæst var hann færður á lögreglustöðina þar sem hann var kærður fyrir að aka undir áhrifum.

Fyrstu fréttir af slysinu voru þess efnis að Kidd hefði verið á heimleið eftir góðgerðarkvöldverð. Síðar virðist sem Kidd hafi farið beint af góðgerðarsamkomunni út að skemmta sér. Heimildum ber ekki saman um hvort Kidd hafi komist útaf skemmtistaðnum óstuddur en ljóst er að hann þótti ekki í ökuhæfu ástandi.

Á blaðamannafundi í síðustu viku sagðist Kidd spenntur yfir því að geta miðlað af reynslu sinni til hins unga Jeremy Lin sem sló í gegn á síðustu leiktíð. Hvort Kidd ætli að miðla af reynslu sinni utan vallar til Lin á eftir að koma í ljós.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×