Það er mikið afrek að hlaupa maraþon en hinn 25 ára gamli Ungverji, Norman Varga, ætlar að slá öll met með því að hlaupa 50 maraþon á 50 dögum.
Varga er fyrrum bardagakappi og hann missti handlegg er hann var 16 ára. Honum var þá ýtt fyrir lest og missti handlegginn sem síðan var græddur á hann aftur.
Hann hóf hlaupið í dag og byrjaði í Búdapest. Hann ætlar að hlaupa alla leið til London og mæta þar þegar Ólympíuleikarnir hefjast.
Varga er að safna peningum fyrir styrktarsjóð sem hann rekur. Sjóðurinn hjálpar ungu fólki í heimalandi hans sem hefur farið út af sporinu í lífinu.
