Fótbolti

Fót­bolta­maður lést eftir sam­stuð inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzales Altamirano var fluttur í burtu sjúkrabíl en því miður tókst ekki að bjarga lífi hans.
Gonzales Altamirano var fluttur í burtu sjúkrabíl en því miður tókst ekki að bjarga lífi hans. @TuFPF

Knattspyrnumaður lést af sárum sínum eftir að hafa lent í miklu samstuði í bikarleik í Perú.

Leikmaðurinn hét Helar Gonzales Altamirano og var aðeins 21 árs gamall. Altamirano var að spila með liði sínu Titan NC í perúska bikarnum á móti Defensor Nueva Cajamarca sem er neðrideildarlið.

„Ég veit ekki hvort þetta var viljandi eða slys en sonur okkar er ekki lengur hjá okkur,“ sagði José Miguel Gonzales Flores, faðir þess látna, við Doble Amarilla.

Gonzales Altamirano var þarna að berjast um boltann við mótherja eftir langa sendingu inn í vítateiginn þegar markvörður mótherjanna kom aðvífandi og tók boltann.

Markvörðurinn og Altamirano skullu illa saman og leikmaðurinn fékk mjög slæmt höfuðhögg. Hann lá eftir og strax var ljóst að hann var mikið slasaður.

Læknalið var komið fljótt á staðinn og hann fluttur í burtu í sjúkrabíl en því miður tókst ekki að bjarga lífi hans.

„Hann dreymdi sem barn að verða mikilvægur fótboltamaður. Ég hef nú upplifað þann hrylling að missa son minn en ég veit að hann er kominn upp til himna og mun skína á okkur þaðan,“ sagði faðir hans José Miguel.

„Liðið mun halda áfram að spila í minningu hans og tileinka honum alla leiki sína,“ sagði José Miguel.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan en við vörum viðkvæma við að horfa á myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×