Mótanefnd KKÍ hefur sett á undanúrslitaleiki Powerade-bikars kvenna næstkomandi mánudag kl. 19.15 en það hefur dregist að setja leikina á vegna kærumáls. Keflavík kærði framkvæmd leiks Njarðvíkur og Keflavíkur í 8-liða úrslitum Powerade-bikars kvenna en aga- og úrskurðarnefnd KKÍ komst að þeirri niðurstöðu að úrslit leiksins skuli standa.
KKÍ segir frá því á heimasíðu sinni í dag að sambandinu hafi borist tilkynning frá Körfuknattleiksdeild Keflavíkur þess efnis að félagið ætli ekki að áfrýja niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar og því ákvað mótanefnd að setja leikina á.
Báðir leikirnir munu fara eins og áður sagði fram á mánudagskvöldið. Njarðvík tekur þá á móti Haukum í Ljónagryfjunni í Njarðvík og Stjarnan sækir Snæfell heim í Stykkishólm.
Þetta tryggir það jafnframt að bikarúrslitaleikur kvenna mun fara fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 18. febrúar.

