Innlent

Lögmaður Samherja furðu lostinn: Eins og ef lögreglan réðist inn í geymslur án heimildar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Jóhannesson lögmaður Samherja.
Helgi Jóhannesson lögmaður Samherja.
Ákvörðun Hæstaréttar um að vísa frá kröfu Samherja og tengdra félaga vegna rannsóknar á meintu broti á gjaldeyrislögum er fráleit að mati Helga Jóhannessonar lögmanns Samherja.

Seðlabankinn fékk úrskurðarheimild til að skoða gögn hjá Samherja og tengdum fyrirtækjum. Af praktískum ástæðum fengu þeir afhenda tölvu með bókhaldinu. Til að forðast að þeir kæmust inn á svæði fyrirtækja sem úrskurðurinn náði ekki til þá var þeim svæðum lokað. „Þeir síðan brjótast inn í þessa hluta tölvunnar og komast þannig inn í þessi gögn. Við krefjumst þess að þetta verði dæmt ólögmætt," segir Helgi og ítrekar að Seðlabankinn hafi farið inn í gögn fyrirtækja sem úrskurðurinn hafi ekki náð til. Það séu þau fyrirtæki sem stefni Seðlabankanum í málinu. Málinu var hins vegar vísað frá bæði af Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti.

Helgi furðar sig á þeirri ákvörðun. „Þetta er nákvæmlega eins og ef lögregla fengi húsleitarheimild í geymsluherbergi í húsnæði þar sem eru fleiri geymslur þá mætti lögreglan fara inn í allar geymslur í húsinu. Af því að þeir voru komnir með húsleitarheimild í einni geymslunni," segir Helgi. Hann segir að Seðlabankanum hefði verið hægt um vik að óska bara eftir aukinni heimild í stað þess að brjótast inn í gögnin.

Þá segir Helgi að þessi aðferðarfræði, þ.e. að afhenda tölvuna en læsa hluta af henni, hafi verið gerð í samráði við Seðlabankann. Tölvumenn frá þeim, sem nutu fulltingis starfsmanna sérstaks saksóknara við húsleitina, hafi fundað með tölvumönnum frá Samherja og komist að þessari niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×