Sport

Risarnir meistarar eftir 178 leiki á 213 dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Sandoval hjá San Francisco Giants var valinn bestur.
Pablo Sandoval hjá San Francisco Giants var valinn bestur. Mynd/AP
San Francisco Giants tryggði sér meistaratitilinn í bandaríska hafnarboltanum í nótt þegar liðið vann fjórða leikinn í röð á móti Detroit Tigers. Giants vann lokaleikinn 4-3 og þar með úrslitaeinvígið 4-0.

Pablo Sandoval sem er frá Venesúela var kosinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins en hann hefur viðurnefnið "Kung Fu Panda". Sandoval sló meðal annars þrjá bolta í heimahöfn í fyrsta leik lokaúrslitanna.

San Francisco Giants tapaði 73 leikjum á tímabilinu en það kom ekki að sök. Risarnir unnu 105 af 178 leikjum á þessu 213 daga tímabili og eru hafnarboltameistarar í annað skiptið á þremur árum.

Úrslitakeppnin gekk reyndar ekkert alltof vel framan af því Giants-liðið tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum í 1. umferðinni á móti Cincinnati Reds en komst áfram með því að vinna þrjá síðustu leikina. Liðið lenti síðan 1-3 undir á móti fráfarandi meisturum St. Louis Cardinals í undanúrslitunum en tryggði sér sæti í úrslitunum með því að vinna þrjá síðustu leikina.

San Francisco Giants vann titilinn líka 2010 og er fyrsta hafnarboltaliðið síðan á áttunda áratugnum sem nær að vinna tvo titla á þremur árum (New York Yankees 1977 og 1978).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×