Innlent

Byggt fyrir útsýnið úr íbúðinni

Temma Bell Listmálarinn Temma Bell málar Esjuna á hverjum degi í stuttri Íslandsheimsókn.Fréttablaðið/Stefán
Temma Bell Listmálarinn Temma Bell málar Esjuna á hverjum degi í stuttri Íslandsheimsókn.Fréttablaðið/Stefán
„Ég gat málað Esjuna úr íbúðinni en nú er búið að byggja fyrir," segir listakonan Temma Bell, sem í gær stóð vaktina við Skúlagötu og málaði Esjuna.

Temma er dóttir hjónanna Louisu Matthíasdóttur listmálara og Lelands Bell. Hún býr í Bandaríkjunum ásamt Ingimundi Kjarval, eiginmanni sínum, en kveðst koma til Íslands eins oft og hún geti. Temma er með íbúð á Hverfisgötu og er hér í heimsókn í nokkra daga.

„Mér finnst mjög skemmtilegt og gott að mála hérna og er búin að mála á hverjum degi," segir Temma. Hún kveður auðsvarað hvert eftirlætismyndefnið sé. „Það er auðvitað Esjan. Hún er alltaf að breytast og maður verður aldrei leiður á því að mála hana. En eftir að byggt var fyrir þar sem ég dvel þarf ég að fara hingað niður eftir til að sjá hana alveg."

Að sögn Temmu hefur gangandi fólki fjölgað mjög við Skúlagötuna.

„Það er svo mikið af útlendingum að hlaupa þarna um. Ég þarf að einbeita mér og reyni að horfa ekki of mikið á fólkið – þá kannski sér það mig ekki,"segir Temma og hlær.

Eftir stutt stopp liggur leið Temmu á ný út. „Ég á að vera málari en við Ingimundur erum með bóndabæ og það er erfitt að vera lengi í burtu þegar það er svo mikið að gera heima," segir listakonan og heldur á vit sauðfjár, nauta, svína og hænsna.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×