Innlent

Líflegir norðurljósadansar í vændum

Karen Kjartansdóttir skrifar
Norðurljósadansinn á íslenska næturhimninum gæti orðið með líflegasta móti næstu misseri að mati Gunnlaugs Björnssonar, stjarneðlisfræðings og forstöðumanns háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Mörgum þykir því fagnaðarefni að bjartar sumarnætur séu á enda í bili. 

Vísindavefurinn útskýrir tilurð norðurljósanna svona: „Frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið. 

Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós."

Styrkleiki sólvirkninnar er hins vegar mismunandi og hafa undanfarin ár ekki skartað miklum norðurljósum þar sem fáar agnir hafa borist í segulsviðið. „Einhverjir hótelrekendur út á landi hafa meira segja hringt í okkur og spurt hvar norðurljósin haldi sig eiginlega," segir Gunnlaugur kíminn en telur að bjartari tímar séu nú framundan þótt aldrei sé hægt að lofa neinu í þessum efnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×