Innlent

Samkeppnishæfni Íslands minnkar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Rannsóknin er byggð á svörum frá íslenska atvinnulífinu.
Rannsóknin er byggð á svörum frá íslenska atvinnulífinu. Mynd/HAG
Ísland vermir nú 31. sæti á listanum yfir samkeppnishæfni landa. Í september 2008 vermdi Ísland tuttugasta sætið en féll um sex sæti í framhaldinu. Síðustu þrjú ár hafa verið litlar breytingar á milli ára og hefur Ísland verið í hópi landa eins og Puerto Rico, Kína og Eistlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem aflar gagna fyrir Alþjóðaefnahagsráðið ár hvert. Rannsóknin er byggð á svörum frá íslenskum fyrirtækjum í atvinnulífinu.

Um stöðu Íslands segir Alþjóðaefnahagsráðið að þrálátur veikleiki efnahagsumhverfisins og veikur fjármálamarkaður dragi úr samkeppnishæfni landsins. Framúrskarandi nýsköpun og öflugt stofnanaumhverfi eru þó þættir sem verða æ mikilvægari í mælingum fyrir samkeppnishæfni landa.

Klaus Schwab, framkvæmdastjóri Alþjóðaefnahagsráðsins, og Árdís Ármannsdóttir, markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Árdís Ármannsdóttir, markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, segir þá þróun gefa Íslendingum tilefni til bjartsýni. 

„Samkvæmt framkvæmdastjóra og stofnanda Alþjóðaefnahagsráðsins, Klaus Schwab, þá er nýsköpun að verða enn mikilvægari fyrir getu þjóða til að tryggja hagsæld til framtíðar. Hann vill meina að skipting á milli þjóða, þróuð og minna þróuð lönd, sé að færast yfir í skiptinguna nýsköpunarrík lönd og lönd þar sem nýsköpun skortir. Þar stendur Ísland vel að vígi þar sem við erum skilgreind sem nýsköpunardrifið samfélag,“ segir Árdís. 

Vísitala Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni er einn virtasti mælikvarði á efnahagslíf þjóða víða um heim. Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika. 

Sviss vermir efsta sætið á listanum fimmta árið í röð, Singapore heldur öðru sæti og Finnland því þriðja. Þýskaland þokar sér upp listann í fjórða sætið og Bandaríkin, sem fallið hafa um sæti fjögur ár í röð, snúa þeirri þróun við og verma nú fimmta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×