Innlent

Flugdólgurinn fer víða - Letterman sér spaugilegu hliðarnar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fregnir af hinu örlagaríka ferðalagi Guðmundar Karls Arnþórssonar frá Keflavík til New York hafa dúkkað upp í fjölmörgum fjölmiðlum heimsins síðustu daga og í dag birti AP fréttastofan myndband af atvikinu sem farþegi tók.

Eins og frægt er orðið þurftu farþegar vélarinnar ásamt flugliðum að yfirbuga Guðmund eftir að hann tók að láta afar ófriðlega um borð í vélinni. Að lokum var bókstaflega búið að líma Guðmund niður í sæti sitt og rataði ljósmynd af því meðal annars á forsíðu stórblaðsins New York Post.

Guðmundur, sem búsettur er á Barbados verður kærður hér á landi af flugfélaginu og segir upplýsingafulltrúi Icelandair að málið sé í venjulegum farvegi.

Og í gærkvöldi varð Guðmundur skotspónn þáttastjórnandans David Letterman sem gerði óspart grín að uppákomunni. Hann hóf þátt sinn á þennan veg:

„Verið róleg, ekki láta mig sækja límbandið," sagði Letterman og kynnti því næst það sem hann kallaði nýjan dagskrárlið.

„Vegna þessa höfum við glænýjan lið í þættinum: Við hvað er drukkni farþeginn hjá Icelandair límdur í dag?"

Því næst mátti sjá samsetta mynd þar sem farþeginn var límdur við símastaur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×