Sport

Kiprotich vann maraþongullið alveg eins og á ÓL í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Kiprotich.
Stephen Kiprotich. Mynd/AFP
Úgandamaðurinn Stephen Kiprotich tryggði sér sigur í maraþoni karla á HM í frjálsum í Moskvu í dag þegar hann kom í mark á tveimur klukkutímunum, níu mínútum og 51 sekúndu. Kiprotich vann einnig maraþonið á Ólympíuleikunum í London og er því bæði Heims- og Ólympíumeistari.

Stephen Kiprotich hafði betur í baráttu við Eþíópíumenn en fjórir næstu menn í hlaupinu voru þaðan. Lelisa Desisa varð í 2. sæti og Tadese Tola tók síðan bronsið. Lelisa Desisa átti besta tíma ársins fyrir hlaupið.

Stephen Kiprotich er 24 ára og þjóðhetja í Úganda. Hann vann eina gull þjóðarinnar í London og þetta voru fyrstu verðlaun Úgandamanna á HM í Moskvu.

Japaninn Kentaro Nakamoto (5. sæti) varð fyrstur af hlaupurum sem eru ekki frá Afríku og efsti Evrópubúinn var Spánverjinn Javier Guerra sem endaði í 15. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×