Franskir fjölmiðlar greina frá því að ökuþórinn Michael Schumacher hafi slasast í skíðaslysi þar í landi.
Samkvæmt fjölmiðlinum Europe 1 var þýski heimsmeistarinn fyrrverandi fluttur á sjúkrahús vegna höfuðmeiðsla. Slysið átti sér stað á fjallasvæðinu Meribel í frönsku ölpunum þar sem Þjóðverjinn 44 ára gamli var á skíðum.
Schumacher var með hjálm og við meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús. Talið er að hann hafi líklegast fengið heilahristing.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Schumacher lendir í slysi. Hann lenti í 17 árekstrum á ferli sínum í Formúlu 1 og í kappakstri á Silverstone árið 1999 fótleggsbrotnaði hann.
Sá þýski lenti enn fremur í mótorhjólaslysi á Spáni árið 2009 og hefur verið slæmur í hálsi síðan.