Innlent

Taldi daga uppbyggingar runna upp

Svavar Hávarðsson skrifar
Björn Zoëga tók við stöðu forstjóra fyrir þremur árum; í byrjun október 2010. Hann gegndi áður starfi framkvæmdastjóra lækninga á spítalanum. fréttablaðið/gva
Björn Zoëga tók við stöðu forstjóra fyrir þremur árum; í byrjun október 2010. Hann gegndi áður starfi framkvæmdastjóra lækninga á spítalanum. fréttablaðið/gva Fréttablaðið/GVA
Björn Zoëga sagði upp starfi sínu sem forstjóri Landspítalans í gær eftir þriggja ára starf. Hann bjóst við því að hefja uppbyggingu spítalans í haust eftir áralangan niðurskurð. Þegar þær vonir brugðust taldi hann sér ekki sætt lengur.

Björn Zoëga hefur sagt starfi sínu sem forstjóri Landspítalans lausu. Ástæðan er einföld. Björn segir að nauðsynleg uppbygging spítalans sé ekki í augsýn, og við þær aðstæður treystir hann sér ekki til að leiða spítalann lengur. Hann segist ekki ætla að verða sá embættismaður sem tekur Landspítalann fram af bjargbrúninni.

„Þetta hefur verið línudans í nokkurn tíma. Spítalinn er í lagi eins og er, en það er mjög fljótt að breytast. Það eru ákveðnar vísbendingar um það, og ég hef varað við því, bæði opinberlega og í samtölum við ráðamenn,“ segir Björn.



Kreista blóð úr steini



„Ég sagði það fyrir tveimur árum að ef kreista eigi meira úr þessum steini þá styttist í að það verði blóð. Þetta á ekki að koma neinum á óvart. Það liggur fyrir að uppbygging á innviðum spítalans er ekki á dagskrá. Kannski þvert á móti,“ segir Björn og viðurkennir að það hafi verið lýjandi að hafa allan sinn tíma í starfi staðið í blóðugum niðurskurði.

„Það er líka lýjandi að á sama tíma og stöðugildum á Landspítalanum hefur fækkað um 350, og þar að baki eru næstum sex hundruð starfsmenn, þá hefur ríkiskerfið bólgnað út. Þetta sýna gögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt voru nýlega. Ég spyr um forgangsröðun. Var staðið í niðurskurði hér á spítalanum til að gefa meira svigrúm á öðrum ríkisstofnunum. Það er einfaldlega komið að þeim tímapunkti að ef við ætlum að halda uppi flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu þá verður að spyrna við. Það verður að fara að stýra fjármunum aftur inn í heilbrigðiskerfið og byggja innviðina upp að nýju. Eins verður annað hvort að gera við húsnæðið eða taka ákvörðun um að hefja framkvæmdir við nýjan spítala.“



Hver er staðan á því verkefni?



„Ég hef grun um að það hafi verið hægt verulega á því verkefni. Það verða engar stórframkvæmdir á næsta ári, eða næstu árum. En það kæmi mér á óvart ef það yrði hætt við byggingu spítalans alfarið. Verum þess samt minnug að þetta er einn af fáum hagræðingarmöguleikum í íslensku heilbrigðiskerfi. Það sparast á þriðja milljarð á ári í rekstarkostnað. Svo vilja menn ekki fara í þá hagræðingu strax.“



Ný fjárlög verða kynnt á þriðjudaginn. Veistu til þess að þar verði kynntur niðurskurður til Landspítalans?



„Ég get ekki tjáð mig um það. Þetta verður, eins og þú segir, kynnt á þriðjudaginn og ég held að tölurnar muni koma fólki á óvart.“

Var búið að setja niður á blað hvað hefði þurft að bætast við fjárframlögin að lágmarki?

„Að lágmarki hefði þurft 600 til 800 milljónir til að taka hænuskref. Þar á ég ekki við um laun, heldur uppbyggingu á innviðum; smátæki, aðstöðu og kannski ráðningar í nokkrar stöður. Þar fyrir utan þarf innspýtingu til að bæta tækjakostinn. Ef það verður ekki gert blasir við algjört hrun. Við erum að nota tæki, sem verður að endurnýja á næstunni, sem eru orðin 17 til 18 ára gömul. Þetta eru einu tækin af þessari gerð á landinu, og við erum að lenda í því að gera við þau fyrir 20 til 40 milljónir. Tæki sem kosta ný 160 milljónir. Þetta nær ekki nokkurri átt.“

Fjármagni var lofað

Ég heyri á þér að þú bjóst við fjármagni til að hefja uppbyggingarstarf.

„Það eru vonbrigði að hafa staðið í niðurskurði og fá ekki tækifæri til að byggja upp að nýju. Ég var bjartsýnn. Við vorum svo bjartsýn að við fengum erlendra ráðgjafa til að aðstoða okkur við þá uppbyggingu sem við töldum að stæði fyrir dyrum. Það var greiningarvinna hvar þörfin væri mest og hvernig þetta yrði gert til að nýta fjármagn með sem skilvirkustum hætti. Svo innilega trúði ég því í kringum kosningarnar að komið væri að uppbyggingartíma, að ráðist var í þá vinnu. Og kannski ekki að furða. Það kom margoft fram í kosningabaráttunni, og síðar, að það yrði gert. Báðir stjórnarflokkarnir komu hingað á spítalann og héldu þessu fram. Af formanni fjárlaganefndar voru nefndir tíu til þrettán milljarðar inn á Landspítalann. Það eru vonbrigði með efndirnar.“

En skjólstæðingar þínir – sjúklingarnir. Hafa óánægjuraddir verið áberandi?

„Þvert á móti. Flestöll þau skeyti sem ég hef fengið frá fólki utan spítalans greina frá jákvæðri upplifun af því starfi sem hér fer fram. Langflestir eru ánægðir með þær breytingar sem hafa orðið á spítalanum. Fólk skrifar að þrátt fyrir niðurskurðinn mæti því jákvætt viðmót og hlýja starfsfólks. Sjúklingarnir hafa samt tekið á sig auknar byrðar. Aðstandendur hafa verið okkar helstu bandamenn í þessum hremmingum og ég held að þetta hefði ekki verið hægt ef það hefði verið með öðrum hætti. Til lengri tíma verður ekki hægt að uppfylla réttmætar kröfur fólksins í landinu nema ráðist verði í uppbyggingu.“

Hefur álag starfsins tekið á fjölskylduna og tengist það uppsögn þinni?



„Þetta er búin að vera mikil vinna, og ofsalega gaman. Það er margt frábært samstarfsfólk í kringum mig. En þegar þetta hættir að vera gaman er ekki vært fyrir mig eða fjölskylduna. Fólkið mitt hefur sýnt mér mikinn skilning. Það er ekkert sjálfsagt að taka stutt sumarfrí eða ekkert frí, svo dæmi sé tekið,“ segir Björn Zoëga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×