Innlent

Aðrir flokkar gætu verið að tala saman án þess að neinn viti af því

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Búist er við að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins haldi áfram að ræða við hugsanlega samstarfsaðila í dag engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður eru þó hafnar. Stjórnmálafræðingur telur ekkert því til fyrirstöðu að aðrir flokkar ræði hugsanlega stjórnarmyndun.

Síðan að Sigmundur fékk umboð til stjórnarmyndunar frá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á þriðjudaginn hefur hann hitt formenn allra flokka. Suma oftar en aðra. Hann hefur þó lítið vilja gefa upp um það hvað komið hafi út úr fundunum en í samtali við vefmiðilinn Eyjuna í gærkvöldi að hann vænti þess að formlegar stjórnarmyndunarviðræður geti hafist um helgina.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir erfitt að lesa í stöðuna en ljóst sé að Sigmundur ætlar að vanda sig við stjórnarmyndun. Hann hafi svigrúm frá forsetanum til að taka tíma í stjórnarmyndun

„Ég sé ekki annað en það fari nú senn að hilla undir það að það fari nú einhverjar formlegar viðræður í gang en hverjir svona komi til með að standa að þeim, það er nú ekki alveg auðséð á þessu augnabliki," segir Grétar Þór.

Hann segir að á meðan að engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður séu hafnar sé hugsanlegt að aðrir flokkar fari að ræða saman um hugsanlega stjórnarmyndun.

„Það er ekkert sem kemur í sjálfu sér veg fyrir það að aðrir geti talað saman, þó að það sé óformlegt og án einhvers formlegs stjórnarmyndunarumboðs þá getur það auðvitað gerst og við höfum auðvitað dæmi um slíkt í sögunni,“ segir Grétar Þór. „Það getur alveg átt sér stað að aðrir flokkar séu að tala saman án þess að neinn viti af því og nái þeir síðan saman um eitthvað og sýni fram á meirihluta þá náttúrulega hljóta þeir á endanum að láta forsetann vita af því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×