Skoðun

Örlæti Ólafs

Sóley Tómasdóttir skrifar
Við Ólafur Stephensen erum sammála um að skattgreiðendur eigi að hlaupa undir bagga með þeim sem ekki geta framfleytt sér sjálfir. Að sjálfsögðu. Flestum öðrum skoðunum Ólafs úr leiðara gærdagsins er ég ósammála.

Fjárhagsaðstoð er ekki eina skylda sveitarfélaganna. Samfélagsleg ábyrgð þeirra felst meðal annars í að fjölga tækifærum fólks, veita grunnmenntun og hvatningu til frekara náms, bjóða upp á frístunda- og félagsstarf sem styrkir sjálfstraust, spennandi störf, virkni- og þátttökuverkefni í þeim tilgangi að stuðla að farsælu lífi allra íbúa.

Raunverulegri virkni verður aldrei náð með skilyrðingum eða hótunum.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að tryggja að fólk sem ekki fær greiðslur annars staðar frá geti lifað mannsæmandi lífi. Það gerir hún því miður ekki í Reykjavík. Við vitum öll að 170 þúsund krónur á mánuði duga skammt fyrir einstakling í samfélagi nútímans. Það er upphæðin sem Sjálfstæðisflokknum þykir ofrausn.

Fjárhagsaðstoðin er ekki greidd út sem laun. Það er ekki ætlast til neins á móti. Og þannig á það að vera. Það á einmitt að vera sjálfsagt að þiggja fjárhagsaðstoð ef aðrir möguleikar eru ekki í boði. Aðstæður fólks sem fær greidda fjárhagsaðstoð eru margvíslegar og ástæðurnar sömuleiðis en ég efast ekki um að hvert og eitt þeirra myndi vilja afla sér tekna með öðrum hætti.

Lægstu laun í samfélaginu eru of lág. Þau eru í mörgum tilfellum greidd fyrir erfiða vinnu og duga varla til framfærslu. Það er óþolandi – en tengist fjárhagsaðstoðinni nákvæmlega ekki neitt. Hún á eftir sem áður að duga fyrir framfærslu.

Fjárhagsaðstoð snýst ekki um örlæti. Hún snýst um samfélagslega ábyrgð í velferðarsamfélagi og gegnir þar mikilvægu hlutverki, sérstaklega þar sem misskiptingin vex og tækifærin eru ójöfn. Hana á að greiða þegar allt annað hefur verið fullreynt. Hún á að vera fyrir okkur öll, rétt eins og heilbrigðis- og menntakerfið. Ef við viljum lækka útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar eigum við að vinna gegn misskiptingu og jafna tækifæri fólks til menntunar, vinnu og heilsu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×