Vilborg Arna Gissurardóttir grét bæði og hló þegar hún sá Suðurpólinn í gærkvöldi eftir að hafa verið ein á göngu í um tvo mánuði. Hún verður sótt á pólinn í dag ef veður leyfir en kemur líklega ekki heim fyrr en eftir rúma viku.
Vilborg lauk göngunni um ellefuleytið í gærkvöldi að íslenskum tíma en þá hafði hún lagt um 1140 kílómetra að baki.
„Maður sér pólinn í töluverði fjarlægð áður en maður kemur að honum og maður fer að hugsa á síðustu metrunum, kólómetrunum. Þá er maður að fara yfir ferðina þannig að til skiptis þá brosir maður og svo koma tárin inn á milli og svo nær maður áfangastað og þá er í raun og veru bara vinna við að koma tjaldbúðum upp og þess háttar. En maður er alveg gríðarlega glaður í hjartanu. Í gær þegar ég skíðaði út að fánaborginni þá kemur sérstök tilfinning í hjartað," segir Vilborg.
Vilborg er fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á Suðurpólinn en hún hafði mikla ánægju af að hitta og spjalla við fólk á áfangastað.
„Ég er búin að vera úti í um 60 daga og hef hitt eina manneskju á leiðinni þannig að það er ótrúleg gaman og gott að vera komin í samfélag við fleira fólk," segir hún. Hún segist vera við góða heilsu þrátt fyrir að það hafi skipst á skin og skúrir á göngunni.
„Ef það verður veður í dag þá verð ég sótt á pólinn og þá mun ég dvelja í búðum ALE væntanlega til 22. janúar, þá er næsta flug af suðurskautinu. Þá á ég flug nokkrum dögum seinna til Chile og verð væntanlega komin 26. eða 27. heim til Íslands," bætir hún við.
Forseti Íslands sendi Vilborgu heillaóskir í morgun og var hún snortin þegar fréttamaður las fyrir hana orðsendinguna. „Vá æðislegt, frábært. Þetta yljar manni um hjartarætur," segir hún.
Vilborgar Örnu gekk á Pólinn í þágu Lífs styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans og er hægt að heita á hana í síma 908 1515 eða með frjálsum framlögum á lifsspor.is. Nú þegar hafa rúmar sjö milljónir safnast. „Ég er rosalega stolt og mér finnst þetta bara æðislegt og ég vil þakka öllum kærlega fyrir að taka þátt," segir Vilborg Arna Gissurardóttir.

