Innlent

Ob-La-Dí-Ob-LaDa ekki karaókístaður

Jakob Bjarnar skrifar
Bítladrengirnir eru meðal margra frábærra tónlistarmanna sem koma reglulega fram á Ob-La-Dí-Ob-LaDa.
Bítladrengirnir eru meðal margra frábærra tónlistarmanna sem koma reglulega fram á Ob-La-Dí-Ob-LaDa. Jakob Bjarnar

Tómasi Magnúsi Tómassyni, Stuðmanni, bassaleikara og vert, var ekki skemmt þegar hann opnaði nýjasta tölublað Grapevine og sá sér til skelfingar að staður hans, Ob-La-Dí-Ob-LaDa, hlaut þar háðuglega útreið, á kolröngum forsendum. Hann hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins:

"Í gær birtist grein í nýjasta Grapevine blaðinu um alla pöbbana á Reykjavíkursvæðinu, og þar var nefndur staðurinn Ob-La-Dí-Ob-LaDa.

Mér sárnaði pínulítið þegar ég komst að því að blaðamaðurinn hafði labbað inn á staðinn við hliðina, sem er Karókí staður," segir Tómas og bendir á að á Ob-La-Dí-Ob-LaDa sé flutt tónlist fimmtudaga, föstudaga og laugadaga allt árið um kring. Reyndar mega gestir staðarins heita öfundverðir því þar koma reglulega fram nokkrir af bestu tónlistarmönnum landsins. En áfram heldur Tómas:

"Staðurinn fær vægast sagt vonda dóma í blaðinu,og ekki er minnst á þá tónlist sem þarna fer fram. Ob-La-Dí-ObLa-Da hefur aldrei verið Karókí staður og verður ekki! Grapevine blaðinu er dreift í þúsundum eintaka,og þá er áríðandi að ferðamenn fái réttar upplýsingar um það sem er að gerast!"

Stuðmaðurinn klikkir svo út með áréttingu og kröfu um að ritstjóri Grapevine leiðrétti þessi hraksmánarlegu vinnubrögð og bendir honum á ... "blaðamannanámskeiðið sem Jónas Kristjáns heldur um þessar mundir á netinu."

Hér fyrir neðan er hægt að lesa nýjasta tölublað Grapevine, þar sem tíu ára útgáfuafmæli blaðsins er fagnað. Umfjöllunin um Ob-La-Dí-Ob-LaDa er að finna á blaðsíðu 24.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×