Körfubolti

EM-draumurinn nánast dáinn eftir fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði stórt fyrir Búlgaríu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2015. Búlgarir unnu 29 stiga heimasigur, 59-88, og stigu með honum risaskref í átt að sigri í riðlinum. Lykilmenn íslenska liðsins lentu í miklu villuvandræðum og íslenska liðið mátti sín mikils á móti stóru mönnum búlgarska liðsins.

Íslenska liðið þarf væntanlega að vinna upp þennan 29 stiga mun í heimaleiknum í Laugardalshöllinni til þess að komast í undanúrslitin og því má segja að EM-draumur íslenska liðsins hafi nánast dáið í fyrsta leik.

Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá íslenska liðinu með 19 stig. Jón Arnór Stefánsson skoraði 13 stig og Hlynur Bæringsson var með 11 stig. Pavel Ermolinskij var með 4 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar.

Búlgarir nýttu 62 prósent skota sinna inn í teig og unnu fráköstin 56-22. Íslenska liðið réð hreinlega ekkert við Búlgari undir körfunum og þessar tölur endurspegla þá staðreynd.

Haukur Helgi Pálsson, stigahæsti leikmaður íslenska liðsins í báðum sigurleikjunum við Dani á dögunum, spilaði aðeins í 5 mínútur í fyrstu þremur leikhlutunum í kvöld vegna villuvandræða og náði ekki að skora stigin sín fimm fyrr en í lokaleikhlutanum.

Íslenska liðið fer næst yfir til Rúmeníu þar sem liðið spilar á miðvikudaginn en síðustu tveir leikir liðsins fara síðan fram í Laugardalshöllinni. Íslenska liðið þarf að vinna alla þessa þrjá leiki og það dugar ekki nema ef liðið nær að bursta Búlgari í Höllinni.

Búlgarir voru 23-13 yfir eftir fyrsta leikhluta og með 16 stiga forskot í hálfleik, 44-28. Leikur íslenska liðsins hrundi síðan endanlega í þriðja leikhlutanum sem tapaðist 12-21 og Búlgarir voru 25 stigum yfir eftir hann, 65-40.

Búlgarir komust mest 31 stigi yfir í fjórða leikhlutanum og munurinn var 29 stig í lokin. Íslenska liðið reyndi allt til að minnka muninn meira en tókst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×