Færeyingar hafa í aldarfjórðung notað 95 sæta þotur af gerðinni British Aerospace og eru þetta stærstu flugvélarnar sem lenda á Reykjavíkurflugvelli að staðaldri. En nú vilja þeir fá að nota ennþá stærri þotur í flugi til og frá Reykjavík. Þeir eru að endurnýja flugflota sinn og hafa keypt þrjár vélar af gerðinni Airbus A-319, sem taka 144 farþega.
Fyrsta Airbus-þota Færeyinga lenti reyndar á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2012, í tengslum við landsleik Íslands og Færeyja, og fékk þá höfðinglegar mótttökur. Þáverandi forstjóri félagsins, Magni Arge, fór þess þá á leit að fá að nota nýju þoturnar í reglubundnu áætlunarflugi en fékk ekkert svar frá íslenskum flugvallaryfirvöldum sem litu ekki á ósk hans sem formlega umsókn.

Flugfélag Íslands, samstarfsaðili Færeyinga, fylgdi umsókninni hins vegar eftir þann 25. september með ósk til Samgöngustofu um að reglur um flugvernd fyrir Reykjavíkurflugvöll yrðu rýmkaðar svo afgreiða mætti 150 farþega þotur að staðaldri. Að sögn Friðþórs hefur Isavia nú óskað eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til málsins.
Sjá mátti báðar þessar flugvélartegundir lenda á Reykjavíkurflugvelli í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.